Margir leita til Leiðbeiningastöðvar heimilanna þegar mikið stendur til svo sem fermingar, skírnir, brúðkaup, stórafmæli og útskriftir. Algengasta spurningin er hversu mikið á að áætla af mat fyrir hvern. Þar kemur „Magn á mann“ skjalið góða sem er að finna á forsíðu www.leidbeiningastod.is.í góðar þarfir.
Hér höfum við tekið saman leiðbeiningar um magn í ýmiskonar veislum
Smáréttir
Borð með úrvali smárétta á vel við þegar halda skal upp á merkisatburði og áfanga.
Varðandi magn í á að giska tveggja tíma boð er miðað við u.þ.b. 12 -15 bita á mann ef um er að ræða pinnamat, en 10 bitar gætu dugað ef boðið er upp á eina tegund af tertu (kransaköku) líka, sem getur verið mjög viðeigandi, fer auðvitað eftir tilefninu.
Osta- og brauðveisla
Á vel við við hin ýmsu tækifæri.
Hér er það hugmyndaflugið eitt sem ræður: Veislu þar sem eingöngu eru boðnir ostar, brauð, smjör, álegg, ávextir og grænmeti er rétt að gera ráð fyrir 200-250 g á mann.
Osturinn er þá aðalatriðið og hitt hráefnið meðlæti.
Hér er málið að blanda ekki saman of mörgum tegundum en hafa samt úrvalið fjölbreytt.
Með ostum er gott að bera fram niðurskorna ávexti, grænmeti, ávaxtahlaup (Sultur) og allskyns pylsur er oft hafðar með líka.
Einn góður heitur ostaréttur er tilvalin á slíkt borð. Smelltu hér fyrir uppskrift af einum slíkum.
Kaffihlaðborð
Með tertum og brauðréttum er gjarnan miðað við:
2-3 tertusneiðar á mann
2-3 skammta af brauðréttum, heitum eða köldum. Hér eru nokkrar hugmyndir.
¼ af flatköku pr. mann, t.d. m/hangikjöti eða reyktum laxi.
Tertur geta verið súkkulaðikökur, t.d. frönsk súkkulaðiterta, rjómatertur, ávaxtatertur t.d. peruterta, ostatertur, gulrótarkaka og svona er endalaust hægt eð telja upp. Margir eiga sér uppáhaldstertu sem ekki má vanta standi eitthvað mikið til og er þá sjálfsagt að uppfylla slíkt. Smelltu hér fyrir hugmyndir.
Svo er gott að hafa eitthvað minna sætt með s.s. kleinur, formkökur, smákökur o.þ.h. og þá miðað við eina sneið eða stykki á mann.
Einnig skal hafa í huga hvort einhver gestanna hafi ofnæmi eða óþol fyrir eggjum, hveiti eða einhverju öðru. Einhver sé Vegan og slíkt.
Drykkir eru þá, kaffi, heitt súkkulaði með þeyttum rjóma eða kakó, te og gosdrykkir. Mjólk/rjómi í kaffi ásamt sykri.
Súpur
Nú er algengt að bjóða upp á allskyns gómsætar súpur sem aðalrétt. Við höfum tekið eftir að mexikósk kjúklingasúpa ein af þeim algengari sem við heyrum af. Margar útgáfur eru til af þeirri súpu, þú finnur eina á síðunni okkar.
Þegar súpa er sem aðalréttur er miðað við um 4-5 dl af súpu á mann, sem svipar til tveggja venjulegra súpudiska en hver venjulegur súpudiskur tekur um 2,5 dl af súpu. Í mexikóska kjúklingasúpu má miða við um 100 gr af kjúkling á mann og 50-60 gr af grænmeti á mann. Þetta viðmið má nota fyrir hvaða kjöt eða grænmetissúpu sem er. Smelltu hér fyrir súpu uppskriftir.
Ef súpan er mjög matarmikil má reikna með minna magni af súpu á mann
Matarmiklar súpur: 150-175 g af fisk/skelfisk eða kjöti á mann
Matarmikil grænmetissúpa 200-300 g af grænmeti á mann í.
Ef súpa er forréttur er miðað við 2 – 2 ½ dl. á mann.
Alltaf þarf þó að hafa í huga aldursamsetningu gesta. Börn borða líklegast ekki mikið meira en einn disk eða um 2,5 dl af súpu.
Þegar boðið er upp á súpu sem aðalrétt þarf líka að hafa í huga meðlætið sem á að bjóða með henni. Er boðið upp gott brauð með? Eða jafnvel osta líka og álegg? Þá er líklegra að hver og einn borði minna af súpu.