Blettaráð

Til að ná blettum úr fatnaði eða öðru er best að reyna strax eða sem allra fyrst að vinna á þeim. Sitji blettur of lengi þannig að efnið drekki hann í sig, þornar hann inn í efnið og erfiðara verður og stundum ógerningur að ná honum úr.

Oft nægir að bera blettaeyði á bletti og þvo síðan á hefðbundin hátt en aðrir blettir þurfa sérmeðhöndlun og því fyrr því betra.

Skoðið alltaf vel meðferðarmerkingar á fatnaði áður en hafist er handa við blettahreinsun. Sum efni og litir þola ekki þvott og er þá best að fara með flíkina í efnalaug. Eins geta hreinsiefni sem efnalaugar hafa yfir að ráða náð þrálátum blettum úr fatnaði.  

Listi yfir efni sem duga gegn algengustu blettum:

Brennsluspritt eða rauðspritt
 (síður bóluspritt, própanólum, sem er í olía)
Hreinsað bensín (kveikjarabensín)
Salmíaksspírtus (fæst í apótekum) Blandað 1 tsk í 1/2 l af köldu vatni
Vetnisperoxíð
(brintovilte) 1 hl á móti 6 af köldu vatni. En í hlutföllum !:8 ( ef lagt er í bleyti til að hvítta t.d. ullarflíkur
Asetón
Uppþvottalögur,
öruggast að nota ólitaðan
Grænsápa (kristalsasápa)
Handsápa, hvít
Hársápa, sjampó, getur verið gott á gamla bletti
Terpentína (White sprit, vatnsuppleysanlegt)
Glýserín, blandast itl helminga á móti volgu vatni
Bleikiefni (klór)
Sápuspænir
Teppa- og húsgagnasápa
Ýmis kemísk blettahreiniefni eru til í úðabrúsum eða sem stifti

Þvottaefni til að leggja blettóttan fatnað í bleyti í eða þvo beint úr í þvottavél

Munum að geyma blettahreinsiefni alltaf þannig að börn nái ekki til þeirra. 

Náttúruvæn blettaefni og sem til eru á flestum heimilium:

Sítróna (náttúrlegt bleikiefni)
Edik, (borðedik/glært edik)
Matarsódi
Gróft salt
Talkúm
Mjólk
Súrmjólk

Undri
, blettahreinsir, sem er íslensk framleiðsla. 
Undri, pensla- og flísasápa
Hreiniefni sem hafa vistvæna vottun.
Tannkrem og aska eru ágætishreiniefni á rispur o.fl. á gler, málma, við og stein.

Nokkur góð ráð við blettahreinsun: 

Ef um vökva er að ræða, er best að byrja að þurrka upp sem mest af honum með eldhúspappír eða klút.
Suma bletti þarf að byrja á að skafa ofan af áður en hafist er handa við eiginlega blettahreinsun.

Ef uppþvottalögur er notaður á bletti í fatnaði er þessi aðferð áhrifarík:
Uppþvottalögurinn (helst litlaus) er borin á blettinn, ef bletturinn er orðin þurr er betra að bleyta aðeins uppí honum.
Flíkin sett í plastpoka, lokað vel fyrir og látið bíða í nokkra klukkutíma jafnvel 1/2 sólarhring. Þá er bleytt upp í blettinum með volgu vatni.
Skolað vel og flíkn síðan vegin á venjubundin hátt.

Munið að ef vatn er notað til að ná úr blettum eða við lok blettahreinsunar, er best að hita/sjóða kalt vatn úr krananum í stað hitaveituvatns, sem vill skilja eftir rönd í kringum staðinn sem bletturinn var á.

Ýmsar tegundir bletta:

Banana- og aðrir ávaxtablettir:
Ef flíkin er hvít er hægt að nudda blettinn með sítrónusafa eða blanda sítrónusýru í vatn og nudda í láta bíða smástund og þvo svo á venjulegan máta.
Aðferðin hér að ofan með uppþvottaleginum gefur góða raun á ávaxtabletti. 

Bjór:
Skola blettinn vel úr volgu vatni. Einnig hefur matarsódi reynst ágætur, þá settur út í vatn, eins má nota sódavatn, einkum á húsgögn og gólfteppi.

Blek:
Brennsluspritt nær flestum tegundum af bleki af fatnaði og húsgögnum.

Blóð:
Best er að leggja flík með blóðblettum í bleyti í kalt vatn með salti (ca 1 dl gróft salt 3 l af vatni). Látið liggja í 15 mínútur. Bera síðan lífræna sápu á blettina, látið liggja góða stund og skolið. Þvoið síðan á venjulega hátt.
Blóðbletti í dýnum er best að ná með því að reisa dýnuna upp á rönd. Bleyta i blettinum með köldu vatni, gera þykkan graut úr matarsóda og vatni og bera á blettin. Látið þorna og burstið af eða ryksugið. Gæti þurft að endurtaka meðferðina. Kartöflumjöl hrært meðð köldu vatni getur reynst ágætlega, borið á blettin og látið þorna við hita t.d. í sól. Burstað af. 

Fita:
S.s. majónes, matarolía, smjör, lýsi og önnur matarfita. Hér duga best lífrænar sápur eða uppþvottalögur. Sjá aðferð hér að ofan. Lýsisbletti getur þurft að bleikja í lokin, t.d. með sítrónusafa.

Fíflamjólk:
Hellið mjólk á blettinn og nudið góðum uppþvottalegi í hann. Látið liggja um stund og þvoið úr. 

Grasgræna:
Uppþvottalögur eða grænsápa eru góð á grasgrænu. Bera á og láta liggja góðan tíma. Skola vel og þvo á eftir. Sítrónusafi eða annað bleikiefni getur dugað vel á grasgrænu í hvítu efni.Gott gerur verið að hella mjólk á blettina og nudda síðan uppþvottalegi í Skola vel og þvo á venjulegan máta.

Harpis (trjákvoða):
Terpentína eða brennsluspritt virka best á harpis.

Kaffi, kakó:
Skola vel úr volgu vatni. Bera uppþvottalög eða grænsápu á blettin og láta liggja góða stund. Skola vel og þvo á eftir.
Undri blettahreinsir hefur reynst vel á gamla kaffibletti.

Karrí:
Það inniheldur túrmerik sem er mjög litsterkt og getur verið erfitt að ná því úr. Best að nudda glýserínupplausn á blettinn og láta bíða um 1/2 klst. Skola þá vel og þvo. Ef bletturinn hverfur ekki er ráð að reyna vetnisperoxíðsupplausn (1 hl. á móti 6 af köldu vatni). Þvo síðan vel.

Kertavax:
Byrja þarf á að ná sem mestu af vaxinu burt. Það er auðveldast með því að frysta eða kæla vaxblettinn og skafa sem mest af.
Ef um litlaust vax er að ræða getur verið gott að leggja eldhúspappír yfir og strauja með volgu staujárni yfir.
Ef vaxið er litað er betra að nota rauðspritt eða brennsluspritt til að ná blettinum úr eða jafnvel hreinsað bensín ef liturinn er sterkur.
Kertavaxleifar leysast upp við 60° hita og ef flíkin eða dúkurinn þolir þann hita er best að þvo hann strrax eftir blettahreinsunina.

Kísill:
Nota má edik, sítrónu eða matarsóda í kringum blöndunartæki. Penslasápan frá Undra reynist vel á kísil.

Lím:
ÞAð fer eftir styrkleika límsins hvað hentar best en hreinsað bensín eða nagalalakkseyðir virka á flest lím. Gætið þó að því efnið þoli þessa vökva.

Mygla:
Ef myglublettur er í fatnaði er ráð að bera súrmjólk á hann, láta liggja góðan tíma, jafnvel nokkra klst, skola svo vel og þvo með sápu t.d. grænsápu (kristalssápu). 

Rauðvín: 
Byrja á að þurrka mesta vökvann upp.  Strá matarsóda yfir blettin og láta þorna. Skola og þvo á venjulegan hátt. Aðferðin með uppþottalög og plastpoka virkar vel á rauðvínsbletti.
Hella má hvítvíni strax yfir rauðvínsblett eða nota sódavatn og þurrka upp með svampi. Þvo síðan.
Eitt ráð er líka að bera glýserínupplausn (blandað til helminga á móti vatni), láta liggja á um stund og skola vel með volgu vatni. Ef enn hattar fyrir bletti er uppþvottalögur ágætur til að honum af.

Ryð:
Gegn ryðblettum í fatnaði eða öðrum vefjarefnum er best að nota ferskan sítrónusafa. Þá er lagður klútur eða annað efni sem dregur vel í sig vökva undir, safanum dreypt á blettinn og salt stráð yfir. Látið þorna í u.þ.b. klst, (gott í sól). Skolað að lokum og þvegið.

Skósverta:
Hreinsað bensín er best til að ná skósvertu af ljósu efni eða leðri. Nota t.d. eyrnapinna við verkið en varast skal að ganga of nærri efninu sem verið er að hreinsa. Ef um ljósa skó er að ræða þarf að bera á þá og bursta vel á eftir.

Sót:
Venujulegt sót er vatnsuppleysanlegt og nægir oftast að þvo flík sem sót fer í. Sé um fitublandað sót að ræða er uppþvottalögur gagnlegur. Ryksugun eða burstun er oft nóg til að losa um sótbletti.

Straujárn:
Það fer eftir því hvaða efni er í hitaflöt straujárnins hvaða efni er best að nota. Járnið þarf að vera kalt. Tannkrem getur reynst vel á krómað stál, hreinsað bensín á keramik og volgt sápuvatn á teflonhúðuð straujárn. Brennsulsprittl virkar lika vel á teflonhúð.

Súkkulaði:
Best er að láta súkkulaðið þorna og skafa með bitlausum hníf. Bleytið vel í blettinum og berið t.d. uppþvottalög eða lífræna sápu á hann og setjið flíkina í plastpoka og loka vel. Má bíða þannig í nokkra klukkutíma. Skolað vel úr og flíkin þvegin á venjulegan máta. 

Tómatsósa:
Láta kalt vatn renna á blettinn, nota mildan uppþvottalög  og þvo síðan.

Tússlitir:
Eins og með blek, brennsluspritt er best. Ef tússið er á vegg eða máluðum eða lökkuðum fleti, getur glerúði dugað til að ná því af.

Tyggjó:
Ef mögulegt er er best að byrja á því að kæla/frysta tyggjóklessuna, annað hvort með klakamola eða setja flík í frysti. Skafa síðan af með hníf eins og hægt er. Nota síðan hreinsað bensín til að ná restinni af blettinum í burtu.

Varalitur:
Best er að nota brennsluspritt eða hreinsað bensín. Bera svo sápu á blettinn og láta liggja ums tund. Skola vel úr.

  • Friday, 26 október 2012