Geymsluaðferðir I

Nauðsynlegt er að geyma mat og bakstur við réttar aðstæður, þannig fáum við meira út úr hráefninu sem við kaupum. Geysmluþol og aðferðir: 

Smákökur geymast vel í góðum loftþéttum kökuboxum. Helst á köldum stað.

Einnig má frysta smákökur, við það eykst geymsluþolið enn frekar.

Nauðsynlegt er að geyma smákökur eins og t.d. Sörur í frysti.

Gott er að raða smákökum, sem í er hátt fituinnhald, lagskipt í box með smjörpappír/bökunarpappír á milli.

Formkökur, lagkökur, tertubotna og sandkökur geymast vel í frysti.

Ávaxtakökur, sem í er vín eða dreypt er á vín er óþarfi að frysta. Vínið eykur geymsluþol til muna og þær verða jafnvel enn betri við geymslu.

Gerbrauð og bollur er auðvelt að frysta og taka úr frysti jöfnum höndum eftir notkun.

Marengsbotna er best að geyma í vel lokuðum ílátum á köldum stað.

Sælgæti heimagert
Heimagert konfekt þarf að geyma í vel lokuðu íláti á köldum stað.

Þegar búið er til konfekt er gott að setja molana litla stund í frysti áður en þeir eru hjúpaðir. 

Eftirréttir
Tilvalið er að útbúa kökur og eftirrétti fyrirfram og frysta.

Matatafgangar
Svo má auðvitað frysta matarafganga, ýmist til að hita upp, nota í aðra rétti eða sem álegg á gott brauð.

Afganga af heitum mat skal geyma sem allra skemmstan tíma við stofuhita, kæla hratt niður og frysta það sem ekki á að nota innan 2ja daga, strax. Þannig komum við í veg fyrir fjölgun sjúkdómsvaldandi gerla og myndun eiturefna í viðkvæmum matvælum.

Öruggast er að þýða matvæli í kæliskáp eða við svipað kuldastig.

Við upphitun á mat skal hafa í huga að hitinn þarf að ná að lágmarki 75°

Ekki er ráðlegt að frysta gúrkur, tómata, soðin egg, majones og blaðsalat.

Það er fólgin mikill sparnaður í að baka til heimilisins, réttast að taka nokkra klukkutíma í að baka og frysta til seinni nota.

Egg
Hægt er að frysta eggjarauður og eggjahvítur, í sitt hvoru lagi eða saman. Ef frysta á hvítur og rauður saman er ágætt að þeyta eggið létt og bæta út í sykri og salti (5 egg = 5 msk og 1 1/2 tsk salt). sama gildir með rauður séu þær frystar sér, en eggjahvítur má fyrsta án sykurs og salts.
Látið þiðna í kæliskáp.

Rjómi
Hann er best að frysta í umbúðunum. Öruggast að hafa hann nýjan. Látin þiðna í kæliskáp en ekki að fullu ef á að þeyta hann því þá vill hann verða kornóttur.

Hreinlæti við matargerð skiptir miklu máli:
Munum að þvo okkur vel um hendur áður en við byrjum að vinna með matvæli, hvort heldur er hráefni eða fullunnin matvara.
að nota alltaf hrein áhöld við undirbúning eldamennsku.
að hafa í huga að skilja að hrá og tilbúin matvæli.
að nota aldrei sömu áhöld við vinnslu á hráum og fullelduðum mat.

  • Friday, 26 október 2012