Sveppamyndun í heimilistækjum

Sveppamyndun t.d. í þvottavélum leynir sér ekki, það kemur vond lykt úr þvottinum og sveppurinn er sýnilegur með berum augum t.d. í sápuhólfinu. Þá er um að gera að hefjast handa og losa sig við þennan hvimleiða „gest“.

Sveppurin þrífst í raka og virðist sem aukin notkun mýkingarefna ásamt þvottaefnum með ensímum eigi þarna aðal sök. Augljóst merki um slíkt er vond lykt úr nýþvegnum þvotti úr þvottavél og vond lykt þegar uppþvottavél er opnuð. Sveppurinn sem um er að ræða er ákv. teg. myglusvepps.


Þvottavélar:

  1. Byrja að skoða hvort dökkgrátt slím (gulleitt í byrjun) er í sápuhólfi vélarinnar.
  2. Ef svo er þá er best að byrja á að þrífa hólfið, taka það í sundur ef hægt er.
  3. Nota óblandað Rodalon*, sem sett er í skál/fat og og nota bursta við verkið (flöskubursta) og fara vel í öll horn hólfsins. Einnig er hægt að setja efnið í úðabrúsa, úða vel í hólfið og skrúbba síðan. Gæta skal þess að nota gúmmíhanska við verkið.
  4. Taka síu eða sigti á sama hátt. Nauðsynlegt er að þrífa einnig gúmmíhring og gler í hurð vel. Helst með óblönduðu efninu.
  5. Áhrifaríkast er að setja Rodalon í sápuhólf + tromlu, stilla á 40°hita (prógramm) og láta vélina taka inn á sig vatn smástund, slökkva síðan á henni og láta standa í henni yfir nótt.
  6.  Kveikja á henni aftur og láta ganga út. Ath! vélin á að vera tóm.
  7. Fyrirbyggjandi aðgerð er að þvo af og til á hæstu stillingu (80° eða 90°, suðuþvott) því sveppamyndun lifir ekki af slíkan hita. En athuga ber að sápuhólfið hitnar ekki svo mikið þannig að sveppamyndunin getur tekið sig upp þar aftur og smitað áfram og þannig verður til vítahringur.
  8. Góð regla er að að þurrka sápuhólf, gúmmíhring og gler eftir notkun og skilja vélina eftir opna á milli þvotta.

Þurrkarar:
Rakaþéttiþurrkarar er nokkuð útsettir fyrir sveppagróðri. Sveppurinn berst með þvotti  úr þvottavélinni. Best að taka rakaþéttigrindina úr, (venjulega neðst á þurrkaranum) og þrífa vel með Rodalonblöndu. Skola vel og þurrka.

Uppþvottavélar:
Gott að láta uppþvottavélahreinsiefni ganga í gegnum tóma vél á góðum hita. Einnig ágætt að hella Rodalonsblöndu í frárennslisslöngu og þvo með blöndunni þar sem vélin tekur inn vatnið, þ.e. á þeim vélum sem taka inn vatnið í gegnum botnsskálina.Rodalon er unnið úr saltupplausnum og er mjög áhrifaríkt gegn algengum bakteríum og sveppamyndunum. Það er sótthreinsandi, lykteyðandi, upplitar ekki og gufar ekki upp í andrúmsloftið.

Rodalon gagnast vel við: Hreinsun á baðkörum, sturtuhengjum og -klefum, fúgum milli flísa og þ.h. Einnig ísskápum, klakavélum, skurðarbrettum, borðtuskum, borðplötum, fiskabúrum og kattasandskassanum. Muna að skola vel á eftir og þurrka.   
Ef vond lykt er úr fatnaði t.d. af völdum sveppamyndunar í þvottavél eða geymslu- og skápalykt, er gagnlegt að leggja hann í bleyti í blöndu af volgu vatni og Rodalon: 1 dl. á móti 1 l. vatni. Má liggja í nokkra klukkutíma. Skola vel og þvo síðan á venjulegan máta. Rodalon hefur ekki áhrif á lit á fatnaði.
Rodalon virkar ekki við hærra hitastig en 60° og ekki skal blanda efninu saman við sápu eða önnur hreinsiefni.

Gott að vita
Efnið zeolit sem er notað í umhverfisvæn þvottaefni í stað fosfat, sem álitið er að hafi skaðleg umhverfisáhrif, er talið nokkur sökudólgur í sveppamyndun í þvottavélum. Huga þarf líka að magni þvottaefnis sem notað er, oftar en ekki erum við að nota of mikið magn, þar sem oft er þvegið við lágt hitastig (30-40°). Óhætt er að minnka magn þvottaefnis töluvert án þess að það komi niður á þá þvotti. Gæta skal samt að því að magnið sé ekki of lítið, þá leysir það ekki upp óhreinindin í þvottinum.
Sama er að segja um notkun á þvottaefnum í er uppþvottavélar, þar má líka minnka magn til mikilla muna.

Heimildir:

www.rodalon.dk (Vefsíða Brenntag Nordic a/s)
www.ust.is  (Vefsíða Umhverfistofnunar)
Tænk og test. 2002, 24. tbl.
 
Einnig stuðst við upplýsingar frá Haraldi Guðbjartssyni, á heimasíðu hans www.rafhof.is en þar er ítarlega fjallað um sveppamyndun  í heimilistækjum.

*Rodalon fæst í matvöruverslunum.

  • Friday, 26 október 2012