Eftirréttur á veisluborðið

Tekur svolítinn tíma að útbúa þessa, en er fullkomlega þess virði.
Ath. Hluti af leiðbeiningum eru í hráefnislýsingu.

Botn
2 eggjahvítur
100 gr strásykur
100 gr makkarónukökur

Skraut á tertuna
150 gr marsipan
2 dl flórsykur
grænn og rauður matarlitur 

Flórsykrinum hnoðað upp í marsipanið og rúllað út í lengju, máluð t.d. með grænum matarlit og eins má gera blóm úr marsipan og lita rauð.

Ísinn
5 eggjarauður
50 gr strásykur
1 líter rjómi
korn úr einni vanillustöng

Ístegund 1
75 gr mjúkt núgga
75 gr marsipan
nokkrar makkarónukökur muldar smátt

Núgga og marsipan skorið smátt og sett út í rjómann í skál nr.1
Hellt yfir makkarónubotninn í smelluforminu. Muldum makkarónukökum stráð yfir (ca 2 msk).

Ístegund 2
150 gr sultuð kirsuber án safa
nokkrar muldar makkarónukökur

Kirsuberin skorin í tvennt og hrærð saman við rjómann í skál nr. 2. Hellt yfir fyrsta íslag og stráð smávegis af muldum makkraónum yfir (ca 2 msk).

Ístegund 3
25 gr möndlur
½ dl strásykur
5 gr smjör

Möndlurnar hakkaðar. Sykurinn settur á þurra pönnu og hitað við hægan hita. Smjörinu og möndlunum bætt út í látið brúnast. Hrært vel í á meðan.
Hellt á bökunarpappír og dreift úr karamellunni. Varúð þetta er mjög heitt!
Látið kólna og mulið smátt t.d. með kökukefli.

Þessu er því næst blandað út í rjómann í skál nr. 3 og hellt yfir lag nr. 2

Leiðbeiningar

Botn
Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykurinn settur saman við og þeytt vel. Makkarónukökurnar muldar mjög fínt og blandað varlega saman við.
Álpappír smurður með olíu settur í botn og aðeins upp með hliðum á smelluformi.

Deiginu hellt í og bakað við 150° í 40 mínútur.

Smelluform er klætt álpappír í botn og alla leið upp fyrir hliðarkant og makkarónubotninn lagður í formið.

Ísinn
Eggjarauðurnar þeyttar með sykri og vanillu þangað til blandan er létt og ljós.
Rjóminn þeyttur sér og blandað vel saman við eggjablönduna. Skipt niður í 3 skálar.

Sjá nánar í hráefnalýsingu með lögun á ístegundanna þriggja...

Þegar búið er að laga allar 3 tegundirnar og setja í lögum yfir makkarónubotninn er lokað vel yfir og ísinn settur í frysti í 5- 6 klst.
Þá er ístertan tekin úr frysti og skreytt með grænum marsipankanti allan hringinn og grænum laufum og rauðri rós í miðjunni. Og/eða þeyttum rjóma ef vill.

Þá er gengið aftur vel frá tertunni og hún sett í frysti.
Tekinn úr frysti 1-2 klst áður en neyta á.

Uppskrift María Kristoffersen DK

  • Friday, 26 október 2012