Þegar jólin nálgast aukast fyrirspurnir til Leiðbeiningastöðvarinnar varðandi bakstur og matseld. Hér höfum við því tekið saman nokkur góð ráð sem ávallt eiga vel við fyrir stórhátíðir og þegar mikið stendur til.
Við jólaundirbúninginn skiptir gott skipulag miklu máli, þannig verður undirbúningurinn áhyggjuminni og skemmtilegri. Það er um að gera að virkja sem flesta á heimilinu með sér eftir getu hvers og eins. Gerum það sem okkur finnst skemmtilegt og við höfum tíma til. Pössum að kæfa okkur ekki í væntingum sem við síðan höfum ekki tíma til að sinna. Með góðri skipulagningu eru miklu betri líkur á því að við njótum hverrar stundar.
Þegar haldin er veisla er sjálfsagt að undirbúa sitt lítið af hverju dagana áður í stað þess að eyða öllum deginum í eldhúsinu og jafnvel missa af góðum stundum með gestunum.
Gott er að hafa eftirfarandi í huga:
Kjöt eins og hangikjöt og hamborgarhrygg má sjóða daginn áður og bera fram kalt. Kælið þá hratt eftir suðu og geymið í kæliskáp við 0-4 °C.
Heitar sósur má útbúa daginn áður, mikilvægt er að kæla hratt niður og geyma við 0-4 °C. Þegar sósan er hituð upp, hitið hana þá upp undir suðu og haldið heitri við rúmlega 60 °C.
Salöt má útbúa daginn áður og geyma við 0-4 °C. Ef salatið er ferskt, skerið þá allt niður en blandið því ekki saman fyrr en samdægurs.
Veljið eftirrétt sem hægt er að frysta og útbúið hann með góðum fyrirvara.
Þrátt fyrir gott skipulag, getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis við matseldina.
Ef sósan skilur sig (mærnar) þá er of mikil fita í henni. Látið hana þá kólna, fleytið fitunni af og þeytið svolitlu af vatni saman við. Þá jafnar sósan sig aftur.
Ef sósan er alltof þunn, þá þarf að þykkja hana. Gott er að nota maismjöl, kartöflumjöl eða tilbúin sósujafnara (hægt að fá þá bæði fyrir dökkar og ljósar sósur). Maismjöl og kartöflumjöl þarf að hræra út í vatn. Einn lítri af sósu þarf um 5- 6 tsk af þykkingarefni sem er hrært út í 5- 6 msk af vatni. Sósan er hituð upp að suðu og blöndunni hellt út í, þeytið vel á meðan.
Ef sósa hleypur í kekki er best að hella sósunni í gegnum sigti og sía kekkina frá.
Brann sósan eða súpan við í pottinum? Hrærið þá alls ekki í pottinum niður við botn, þá eru meiri líkur á að það sem er brunnið blandist saman við. Hellið súpunni eða sósunni í annan pott og hitið upp að nýju við vægan hita. Smá sykur kæfir brunabragð ef það er til staðar.
Er sósan of sölt? Setjið hráa kartöflu út í og sjóðið í smá stund. Hún dregur í sig saltið. Ekki gleyma að fjarlægja kartöfluna áður en sósan er borin fram. Þetta ráð er líka hægt að nota fyrir súpur og pottrétti.
Góð ráð fyrir baksturinn:
Hafið smjör og egg við herbergishita þegar bakað er.
Ef smjörið er of kalt og hart er einfaldast að mýkja það með því að skera það í minni bita til að flýta fyrir.
Best er að geyma eggjarauður til næsta dags með því að setja þær i bolla, setja smá vatn yfir og geyma í ísskápnum. Þær geymast þannig í ísskápnum í sólarhring.
Hægt er að frysta eggjarauður og eggjahvítur, í sitt hvoru lagi eða saman. Ef frysta á hvítur og rauður saman er ágætt að þeyta eggið létt og bæta út í sykri og salti (5 egg = 5 msk og 1 1/2 tsk salt). Sama aðferð gildir með rauður séu þær frystar sér, en eggjahvítur má frysta án sykurs og salts.
Látið þiðna í kæliskáp.
Ef kaka situr föst í forminu reynist stundum vel að hvolfa forminu og þekja það með viskastykki sem búið er að vinda upp úr vel heitu vatni. Bíðið þar til kakan losnar úr forminu.
Til að þeyta rjóma er best að bæði rjóminn og skálin sem þeytt er í séu vel köld. Ef settir eru 2-3 dropar af sítrónusafa saman við rjómann þá þeytist hann enn betur.
Þegar súkkulaði er brætt yfir vatnsbaði þarf að gæta þess að hvorki vatn né gufa komist í súkkulaðið því þá getur það farið í kekki. Ef það gerist getur dugað að setja teskeið af bragðlítilli olíu út í og hræra þar til blandan verður slétt.
Dökkt súkkulaði inniheldur meira af kakói og minna af feiti og sykri heldur en ljóst súkkulaði.
T.d. er 70 % súkkulaði hentugt í smákökur þar sem hátt hlutfall af sykri er í uppskriftinni.
Þegar bræða á núggat má alls ekki fara vatn út í, þá verður það hart.
Þegar bakaðar eru smákökur þarf að fylgjast vel með tímanum, hiti er mjög misjafn milli ofna og oft er tíminn sem er uppgefin ekki réttur miðað við þinn ofn. Fylgist vel með og kíkið á kökurnar tveim - þrem mínútum áður en uppgefin tími er liðinn. Smákökur eru mjög fljótar að fara úr að vera tilbúnar og í það að brenna. Gott er að skrifa inn á uppskriftina tímann sem hentar þínum ofni svo þú vitir nákvæmlega timann samkvæmt þínum ofni, næst þegar þú bakar sömu uppskrift.
Örugglega margir sem kannast við að hafa gleymt sér yfir tölvunni og brennt nokkrar plötur af smákökum. Notaðu símann eða klukku til að stilla tímann til að minna þig á.
Margar uppskriftir er hægt að gera fyrirfram og baka eftir hendinni eina og eina plötu, þegar gesti ber að garði eða þegar þig einfaldlega langar í góða bökunarlykt í húsið. Rúllaðu þá deiginu upp og vefðu það vel inn í plastfilmu og geymdu í ísskápnum. Það geymist vel þannig í nokkra daga. Ef þú vilt geyma það lengur er hægt að setja það í frysti. Það er líka ekkert að því að kaupa tilbúið kökudeig og eiga í ísskápnum eða frystinum í sama tilgangi.
Munið að njóta stundanna saman, það er samveran sem skiptir máli.
Gleðileg jól.
__
Einnig er alltaf hægt að senda fyrirspurnir á tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
JJ/2016