Fataskiptimarkaðir - góð leið til að minnka fatasóun

Er fataskápurinn þinn fullur af fötum en þú finnur samt ekkert til að fara í?   

Hefur þú heyrt um þumalputtaregluna 20/80, en sú regla á við um margt í lífi okkar.   Það er sagt að við notum einungis um 20% af fötunum okkar 80% af tímanum. Í stað þess að hlaupa af stað og versla nýtt eru fataskiptimarkaðir frábær leið til að endurnýja í fataskápnum. Þú ferð með flíkur sem þú ert hætt/ur að nota og færð aðrar í staðinn.  Þannig lengjum við líftímann á flíkunum okkar og gerum okkar til að minnka fatasóun. Í hvert skipti sem þú sleppir þvi að kaupa nýtt og notar hlutinn/flíkina lengur leggur þú þitt af mörkum fyrir umhverfið. 

Fataskiptimarkaði er að finna víða og eru haldnir reglulega á mörgum stöðum.  En svo er einfalt að skipuleggja sinn eigin fataskiptimarkað, jafnvel heima í stofu eða á vinnustaðnum. Kvenfélagasambandið hefur hvatt kvenfélögin til að halda fataskiptimarkaði á sínum svæðum.

Hér eru einfaldar ráðleggingar við skipulagningu fataskiptimarkaðs og hvernig má skipuleggja þá á mismunandi vegu.

Undirbúningur er mikilvægur.

Með vinum og eða vinnufélögum er oft hægt að nýta vinnustaðinn t.d. mötuneytið eða bjóða heim í stofu. Það er einfalt og þarf lágmarks skipulagningu.  Ef ætlunin er að hafa fataskiptimarkaðinn opinn fyrir almenning er hentugast að velja laugardag eða sunnudag og hafa markaðinn opinn í nokkrar klukkustundir. Er félagsheimili, skóli eða safnaðarheimili á staðnum sem myndi lána eða leigja aðstöðu fyrir lítinn pening? Gerið ráð fyrir tíma fyrir undirbúning og uppsetningu og til að ganga frá.

Einfaldasta formið á fataskiptimarkað er þegar allir koma með eitthvað, hægt að setja lágmark og hámark á fjölda flíka sem hver kemur með. Þá koma jafnvel allir á sama tíma, raða upp sínu eða skila fyrir opnun á ákveðnum tíma og skipuleggjendur raða upp áður en opnað er, til dæmis klukkutíma síðar. Einnig er hægt að lágmarka fyrirhöfn með því að leyfa fólki að koma þann tíma sem markaðurinn er opinn og hver og einn einfaldlega setur það sem hann/hún kemur með og raðar upp þar sem það á við.  Gott að merkja borð og fatarekka með t.d. buxur, pils, kjólar, peysur ofrv. Sá sem kemur með tekur síðan annað í staðinn.  Til að halda góðu yfirliti er best að byrja á að setja nokkrar flíkur á rekkana og borðin og raða fallega og brjóta saman þær flíkur sem skipuleggjendur koma með áður en opnað er, það eru meiri líkur þá á því að þeir sem koma með til að bæta við gangi jafn snyrtilega um. Þannig er auðveldara að leita að flíkum og skoða hvað er í boði í stað þessa að þurfa að róta í stórum hrúgum.

Mikilvægt er að huga að því að hafa nóg af fataslám, herðatrjám og borðum.

Þarf að fá upp í kostnað á salarleigu eða er ætlunin að safna jafnvel pening fyrir gott málefni í leiðinni?

Til þess eru ýmsar leiðir. Til dæmis að afhenda miða fyrir hverja flík sem komið er með og hægt að skipta miðum fyrir aðrar flíkur, síðan eru seldir aukamiðar á lítinn pening ef fólk finnur fleiri flíkur en það kemur með.  Þetta krefst þess að það þarf fleiri aðila til að sjá um þetta, gefa út miða og taka við.  Einnig er hægt að bjóða upp á eitthvað nasl, til dæmis selja kaffi og léttar veitingar. Það fær fólk til að dvelja aðeins lengur og getur skapað skemmtilega markaðsstemmingu.  Fataskiptimarkaðir eru nefnilega skemmtilegir og gestir fara heim ánægðir með fataskiptin.  Í lokin þarf svo að huga að því hvert á að fara með þær flíkur sem verða afgangs. Finnið aðila nálægt sem tekur við notuðum fatnaði.  

Þegar búið er að velja stað, stund og fyrirkomulag er næsta mál að auglýsa viðburðinn með nægum fyrirvara. Nýtið allar leiðir til að auglýsa viðburðinn ykkar.  Sendið út fréttatilkynningar í fjölmiðla og/eða bæjarblöðin, gerið viðburð á fésbókina og biðjið fólk að deila meðal sinna vina.  Mikilvægt er að biðja fólk að koma með hreinar og óslitnar flíkur og taka fram í auglýsingu hvert fyrirkomulagið er á þín markaði. Slitnar flíkur eiga frekar heima í endurvinnslugámunum. Að lokum er sjálfsagt að minna fólk á að koma með sinn eigin fjölnota poka.

Gerum okkar til að minnka fatasóun.  Gangi ykkur vel.

Jenný Jóakimsdóttir

Leiðbeiningastöð heimilanna.

  • Friday, 05 apríl 2019