Þvottur

Það borgar sig að skoða merkingar á fatnaði vel t.d. hvaða hitastig skal notað og hvort má þvo hann, áður en við skellum honum í þvottavélina. 
Sumar flíkur þola einungis hreinsun í efnalaug meðan aðra þola slíkt alls ekki. 
Þannig aukum við „líftíma“ fatnaðins og hann helst fallegur lengur.

Þvottaleiðbeiningar

Uppgefið magn sem má fara í þvottavélar á við þurran þvott.

Flokkun  -  meðhöndlun

  • Flokka þvott eftir lit og hve hátt hitastig er gefið upp á hverri flík. Einnig aðgreina flíkur sem notaðar eru dags daglega og þær sem notaðar eru spari. Það er áríðandi að sterklitaður þvottur sé þvegin sér, sérstaklega þegar hann er þvegin í fyrsta skipti. Gallabuxur láta t.d. lit í hvert skipti sem þær eru þvegnar. Best er að þvo flíkur í sama eða svipuðum lit  saman. Gott er að hafa í huga að ef ólitaður fatnaður úr náttúrulegum efnum tekur í sig lit, þá getur verið gagn í að þvo hann aftur á sama hitastigi. Erfiðar er við gerviefni að eiga ef þau taka í sig lit úr öðrum fatnaði.
    Muna að tæma alla vasa af smáhlutum.
  • Ef t.d. fitublettir eða annað eru í fatnaði er nauðsynlegt að meðhöndla þá strax með viðeigandi efni t.d. uppþvottalegi, grænsápu eða sérstöku blettaefni og þvo flíkina síðan á venjubundin hátt. Skola þarf freyðandi sápuefni vel úr áður en flíkin fer í vélina. Blettaúðaefni eru ágæt á t.d. óhreinindi innan í hálskrögum og á líningum. Þynntur uppþottalögur gerir lika sitt gagn.
    Ef ryk eða þurr óhreinindi eru í fatnaði er gott að hrista hann eða bursta áður en hann fer í vélina.
  • Þvo skal flíkur á röngunni, einkum þær sem teljast betri flíkur. Það varnar bæði sliti og flíkin hnökrar síður. Þetta á t.d. við um prjónaðan fatnað og flíkur úr flísefnum. Hins vegar ber að athuga að sé flíkin mjög skítug þvæst betur úr henni ef hún er á réttunni.
  • Muna að renna upp rennilásum og loka „frönskum lásum“. Það kemur í veg fyrir að lásar dragi til í öðrum þvotti. Auk þess fer það betur með lásinn.
  • Athuga skal vel að nota ekki of mikið þvottaefni. Uppgefið magn pr. kíló af þvotti er oftast reiknað fyrir kalkríkt vatn en kalda vatnið hér á landi hefur lítið kalkinnihald og nær ekki að leysa upp allt þvottaefnið ef mikið er notað. Þá sest það í þvottinn og skilur eftir gráa bletti. Fljótandi þvottaefni skilur ekki eftir sig hvíta eða grá bletti í þvottinum. Oftast má helminga það magn sem upp er gefið.
    Mýkingarefni er óþarfi að nota nema þá stöku sinnum. Munið að í því eru efni sem leggjast utan á þvottinn. Auk þess sem talið er að enzím í þeim auki líkurnar á sveppamyndunu í þvottavélum.
  • Ekki er ráðlagt að leggja þvott í bleyti áður en hann er settur í þvottavélina. Þegar blautur þvottur er settur í vélina á hún erfiðara með að stilla hitastigið á vatninu rétt. Þá geta litaðar flíkur frekar gefið frá sér lit.
  • Forðist að geyma að þvo óhreinan þvott of lengi því þá vilja óhreinindin festast í efninu. Auk þess sem myndast getur sveppagróður (mygla) í rökum fatnaði.
  • Þurrka skal þvottinn á réttunni. Mikilvægt er að fylgja uppgefnu á hitastigi á straujárni og eins hvort flík þolir pressun, þurrkara os.frv. Góð regla er að slétta vel úr þvotti áður en hann er hengdur til þerris eða hrista hann til áður en hann fer í þurrkarann. Það fer betur með þvottinn ef hann er þurrkaður í þurrkara að hafa þurrktímann lengri og hitastig lægra. Sumar flíkur er betra að strauja á röngunni sérstaklega þær sem eru á með áþrykktu munstri eða merkjum.
    Hafa skal í huga að að það er hitinn og raki (ef notað er gufustraujárn) frá straujárninu sem slétta flíkina og því óþarfi að beita afli við verkið.
    Ef fatnaður hefur krumpast illa í þurrkun er gott ráð að úða hann með köldu vatni og setja í plastpoka og loka fyrir og geyma hann þannig nokkra stund. Þá er mun auðveldara að strauja hann.
    Síðast en ekki síst,: Göngum fallega frá nýstraujuðum og pressuðum fatnaði.
  • Munið að merkingar og upplýsingar á fatnaði eru samkvæmt eiginleikum efnanna sem hann er gerður úr og því mikilvægt að fylgja þeim eftir. Þannig endist flíkin lengur, hleypur síður og heldur betur lit og lögun.
  • Friday, 26 október 2012