Góðir skór eru dýrir og það borgar sig að halda þeim vel við, þannig endast þeir betur og halda lengur fallegu útliti.
Umhirða á skóm
Leðurskó þarf að þrífa og bera á reglulega til að þeir líti vel út. Útiskó úr leðri er nauðsynlegt að bera vel á litlausa vörn/silicon strax í byrjun. Og halda þeim svo við með góðri leðurfeiti. Koppafeiti er t.d.mjög góð viðhalds- og varnarmeðferð. Bursta þarf skó reglulega með lituðum skóáburði. Ef skór blotna illa er gott ráð að troða dagblaðapappír í þá og láta standa yfir nótt. Skósvampur með glansefni er góður til að viðhalda vel burstuðum og hreinum skóm.
Rúskinnsskó á þá er best að nota þar til gerða bursta. Nota má strokleður til að jafna áferð. Bletti má hreinsa varlega með blettaefni fyrir rússkinn.
Skó úr gerviefni þarf líka að hugsa vel um. Bera á þá feiti og þurrka með mjúkum klút. Þannig endast þeir betur og halda lengur fallegu útliti.
Gúmmístígvél þarf að þrífa reglulega með vatni og sápu. Ef þau eru orðin mött verða þau sem ný ef þau eru nudduð með venjulegri matarolíu og þurrkuð vel á eftir.
Strigaskó sem ekki má þvo í þvottvél, má þvo með teppasjampói. Svartar rendur á köntum má hreinsa með kveikjarabensíni.
Önnur þrif á skófatnaði
Saltrendur. Blandið nokkrum dropum af sítrónusafa í volgt vatn og þvoið rendurnar varlega af með bómullarklút eða notið mjúkan bursta. Bursta á venjulega hátt að lokum. Láti maður saltrendur eiga sig þornar leðrið og sprungur geta myndast.
Grasgræna á stigaskóm næst af með uppþvottalegi og volgu vatni. Gott að nota t.d. naglabursta við verkið.
Svartar rendur á ljósum spariskóm nást af með kveikjarabensíni. Best er að nota eyrnapinna og fara varlega í að nudda endurnar af.
Skó sem lykta illa má strá vel af matarsóda í, láta standa yfir nótt og hrista vel úr þeim áður en farið er í þá. Það fást líka sérstök efni til að hreinsa þá með.
Geymsla á skófatnaði
Það skiptir máli að ganga vel frá skóm sem ekki eru í notkun. Nota má skóþvingur í spariskóna svo þeir haldi betur lögun.
Það eru til glærir skókassar sem eru upplagðir til að halda skikki á skóeigninni.
Skældum og illa gengnum skóm borgar sig að henda, því þeir fara illa með fæturnar.