Mygla í matvælum, henda eða nota?

Hversu oft lendum við ekki í því að kaupa poka af t.d. gulrótum og nokkrar gulrætur eru slímugar eða myglaðar. Við stöndum þá frammi fyrir því hvort við eigum að henda öllum pokanum eða sortera þær slæmu frá. Algengasta svarið er að henda öllum pokanum.

En svarið er ekki svo einfalt. Það skiptir nefnilega máli um hvaða mat er að ræða.  

Hvað er Mygla?
Mygla er í raun sveppategund. Myglusveppir framleiða sveppaeiturefni.
”Til eru nokkur hundruð tegundir sveppaeiturefna (mycotoxins) en tvö þeirra eru algeng vandamál í matvælum og eru það eiturefnin aflatoxín og okratoxín A. Erfitt getur reynst að koma í veg fyrir myndun eiturefnanna í kornvörum og öðrum vörum þegar hagstæð skilyrði eru í umhverfinu eins og hátt hita- og rakastig.
Margir myglusveppir framleiða eiturefni í matvælum sem þola hitun og jafnvel suðu. Verkun eiturefnanna eru margvísleg og geta þau bæði valdið bráðum eitrunaáhrifum og haft langtímaáhrif á ýmis líffærakerfi. Sum sveppaeitur hafa áhrif á ónæmiskerfið, önnur geta haft ýmis varanleg skaðleg áhrif, og enn önnur geta haft stökkbreytandi og/eða krabbameinsvaldandi áhrif í ákveðnum móttækilegum tegundum dýra og geta einnig valdið bráðum eða krónískum sjúkdómum í heimilisdýrum, búfé og fólki. Í mörgum tilfellum eru áhrif sveppaeiturs á heilsu manna ekki þekkt og er ekki vitað hve stór skammtur eiturs hefur áhrif hana.“ Af vef Matvælastofnunar

Ef það er myglusveppur á rökum og vatnsríkum matvælum geta sveppeiturefnin farið á flakk og smitað allan matinn og í kringum sig. Ef matvælin eru þurr í sér og þétt eða hörð er aftur á móti hægt að skera mygluna í burtu, það þarf þó að gæta þess að hnífurinn smiti síðan ekki út frá sér. Þrífið því hnifinn vel á eftir.


Hvenær eigum við henda matnum?

Vatnsmikið grænmeti og ávextir.
Ef þú finnur myglu á vatnsmiklu grænmeti eins og til dæmis á agúrku og tómötum og vatnsmiklum ávöxtum einsog vínberjum, appelsínum og plómum ættir þú alltaf að fleygja þeim.

Epli og perur
Epli og Perur geta innihaldið sveppaeitrið Patulin. Til að sjá hvort að ávöxturinn er smitaður skal skera eplið eða peruna í tvennt og sjá hvort það er þráður af svepp í kjarnanum.

Minna vatnsríkt grænmeti og ávextir
Hér erum við að tala um til dæmis gulrætur og kál. Ef það er mygla er í lagi að fjarlægja mygluna og skola síðan og nýta það sem er heilt.
Ef gulrætur eru hvítar og slímugar er um að ræða bakteríur en ekki mygla. Bakteríurnar eru fljótar að breiða úr sér en það er ekki hættulegt að borða það. Það er því í lagi að skola og skera það í burtu. Getur þó haft áhrif á bragð.
Ef gulrótin er hins vegar með gráleitum blettum, gæti verið um myglusvepp að ræða. Þó er það að öllum líkindum ekki sveppur sem gefur frá sér eiturefni og á því að vera í lagi að skera það í burtu. Gulrótin gæti þó haft skrýtið málm bragð. Ef einstaka gulrót í pokanum er slímug eða mygluð er nóg að henda þeim slæmu í burtu og skola vel restina sem er í pokanum. (hendið pokanum) (Að sjálfsögðu best að kaupa í lausu og sleppa plastinu)

Brauð
Ef þú sérð myglublett á brauðsneið ætti alltaf að henda öllum pokanum. Myglusveppurinn gæti hafa breiðst út langt inní brauðsneiðarnar þó myglan sjáist ekki.
Þjóðsagan sem við mörg hver fengum að heyra sem krakkar um að myglan á brauðinu væri bara holl því það væri pensilín í henni, er því rakinn vitleysa!!

Sultur
Ef þú sérð myglu í sultukrukkunni ætti alltaf að henda allri krukkunni. Það er ekki nóg að skafa mygluna bara í burtu. Myglan getur vel hafa breiðst út alveg niður í botn.

Hnetur
Við ættum alltaf að henda mygluðum hnetum. Sérstaklega ættum við að skoða hvort það sé mygla í miðjunni á hnetum, til dæmis í Brasilískum hnetum.

Mjólkurvörur
Ef þú finnur myglu í mjólkurvörum ætti alltaf að henda þeim. Hvort sem er rjómi, smurostur eða mjúkur ostur eins og Brie eða Camembert eða smjör. Þó er í lagi að skera myglu í burtu af hörðum ostum. Skera þarf um einn sentimetra frá myglublettinum.

Sveppir
Ef hvít himna er á rót sveppa þá er það ekki mygla heldur þeirra eigin mycelium. Það má einfaldlega skera hvítu himnuna af ásamt ögnum af jarðvegi.

Kjöt
Ef kjöt er myglað ætti alltaf að henda því. Hvort sem það er kjötsneið, lifrarkæfa eða hakkað kjöt.


Svona geymum við matvörur til að koma í veg fyrir myglu.
Það eru tvær ástæður fyrir því að matur myglar. Maturinn er annaðhvort komin fram yfir síðasta neyslu dag eða að hann er ekki geymdur á réttan hátt.
Best fyrir dagsetningin fer nefnilega mikið eftir því hvernig maturinn er geymdur. Hér eru nokkur góð ráð við geymslu matvæla.

Ávextir og grænmeti.
Útgangspunkturinn hér er að umpakka áður en sett er í kæliskáp.
Gott ráð fyrir grænmeti er að setja það í ítlát með loftgötum og setja eldhúsbréf eða dagblöð í skúffuna og/eða ílátið til að draga til sín rakann.
Hér eru fleiri ráð við geymslu ávaxta og grænmetis.

Brauð
Geyma ætti brauð í plastpoka með götum eða í pappírspoka. Þegar brauðið nær að anda er minni lífslíkur fyrir myglusvepp. Alltaf sniðugt að skella helmingnum af brauðinu í frystinn ef ekki á að borða það innan tveggja daga.

Kjöt
Kjöt ætti alltaf að geyma í kæliskáp. Athugið vel að ísskápurinn sé stilltur á rétt hitastig.

Ísskápurinn á að vera 0-4°C og frystirinn -18°C eða kaldari.

Algengt er að hitastig í ísskápum sé mun hærra en við höldum. Fylgstu með því, það skilar sér í betra geymsluþoli, auk þess sem það tryggir öryggi matarins.

Farið í gegnum ísskápinn einu sinni í viku til að tæma, nýta það sem er í lagi og henda úr ísskápnum því sem er orðið ónýtt. Nauðsynlegt er að þrífa ísskápinn reglulega til að forða smit af myglugróum. Notið nefið, treystið á skynfærin áður en þú hendir góðum mat. Það er munur á Síðasta notkunardegi og Best fyrir merkingum. Ef varan er komin á síðasta merkta notkunardag, skal henda vörunni strax. Best fyrir dagsetning þýðir að varan er hæf til neyslu ef hún lyktar og bragðast eðlilega. Hér eru fleiri ráð við þrif á ísskáp.

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Fødevarestyrelsen.dk og mast.is

 

 

 

 

 

JJ/2017

  • Wednesday, 13 september 2017