Geymsla á ávöxtum og grænmeti

Mikilvægt er að geyma ávexti og grænmeti við rétt skilyrði til að minnka sóun. Eitt af því fyrsta er að versla rétt inn, kaupa hæfilegt magn og minna og oftar þær tegundir sem hafa minna geymsluþol.

Það er margt sem þarf að hafa í huga við geymsluna, en eitt af því er að gæta þess að geyma ekki ávexti og grænmeti saman sem gefa frá sér etýlene sem er gastegund sem ávextir og grænmeti framleiða í mismiklu magni. Etýlene flýtir fyrir rotnun og því ekki gott að geyma ávexti og grænmeti sem gefa mikið af því frá sér með öðru grænmeti og ávöxtum sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir etýlene. Ekki auðvelt að muna í fyrstu, en hér höfum við tekið saman lista sem sýnir það helsta til að auðvelda okkur þetta aðeins.

Athugið að ávextir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hnjaski og eitt lítið mar á t.d. eplum og perum er fljótt að breiðast út. Því er gott að muna að handfjatla ávextina okkar varlega og troða ekki of miklu t.d. í skúffurnar í ísskápnum.


Þessir ávextir gefa frá sér töluvert magn af etýlene og ætti að geyma í ísskápnum:
• Epli (geyma helst í bréfpoka ef geymt með öðrum ávöxtum í ávaxtaskúffunni)(Best að geyma sér í ávaxtaskúffunni í ísskápnum og leggja rakt eldhúsbréf ofan á) (munið að eitt rotið epli er fljótt að skemma út frá sér)
• Aprikósur
• Kantalópur
• Hunangsmelónur

Þessir ávextir gefa frá sér etýlene og ætti ekki að geyma í ísskáp:
• Avokadó – setja samt í ísskáp þegar fullþroskað
• Bananar – geymast samt vel í ísskáp þegar þeir eru fullþroskaðir.
• Nektarínur (setja í ísskáp þegar fullþroskaðar)
• Ferskjur (setja í ísskáp þegar fullþroskaðar)
• Perur (setja í ísskáp þegar orðið alveg þroskað)
• Plómur (geyma í ísskáp þegar fullþroskaðar)
• Mangó (geyma við stofuhita)
• Tómatar ( best að geyma við 10 – 12°C)

Þessir ávextir og grænmeti eru sérstaklega viðkvæmir fyrir etýlene og ætti að halda þeim frá þeim ávöxtum sem nefndir eru hér að ofan:
• Fullþroskaðir bananar (geymast ágætlega í ísskáp fullþroskaðir, en hýðið verður brúnt)
• Brokkolí (geyma í ísskáp)
• Hvítkál (geyma í ísskáp)
• Gulrætur (taka grænu blöðin af fyrir geymslu)
• Blómkál (geyma í ísskáp)
• Agúrkur (einsog tómatar, geymast best við 10 – 12°C)
• Eggaldin (geyma í ísskáp)
• Salat og annað blaðgrænmeti (best að geyma í poka eða plastíláti í ísskáp, með eldhúsbréfi, sem dregur þá í sig rakann)
• Steinselja (best að stinga stönglinum í vatn)
• Baunir
• Paprika
• Sætar kartöflur (ætti ekki að geyma í ísskáp)
• Vatnsmelónur (ekki að geyma í ísskáp)

Geymið á köldum og þurrum stað:
Kartöflur
Lauk
(ekki geyma kartöflur og lauk saman, það flýtir fyrir að kartöflurnar spíri)

Geyma við stofuhita:
Appelsínur
Ananas
Engifer
Hvítlaukur

Þroskaðar sítrónur ætti að geyma í ísskáp.


Gott ráð til að fríska upp á grænmeti sem er orðið aðeins lint og visið er að skella því í ísskalt vatnsbað til að fríska það aðeins við.  Þetta má gera jafnt við salatblöðin, gulrætur, rófur, kartöflur ofl.


Svo er um að gera að muna að skella því sem við ætlum ekki að nota í frystinn eða nota strax í t.d. súpur, grænmetisrétti eða Boost.

 

Gangi þér vel. 

  • Tuesday, 24 janúar 2017