Ef kaupviskan er í lagi eru meiri líkur á því að við högum innkaupum okkar skynsamlega fyrir okkur sjálf, umhverfið og jörðina alla.
Í þessari grein er því kastað fram nokkrum staðreyndum sem mun vonandi auka meðvitund og kaupviskuna næst þegar þú ferð út í búð.
Hvað er hraðtíska?Hraðtíska (fast fashion) er orð yfir framleiðslu fatnaðar þar sem markmikið er að framleiða sem mest og hraðast af fatnaði sem við kaupum oft. Vörumerkin sem nýta sér hraðtískuna, senda nýtt í búðirnar í hverri viku og vænta þess að við bítum á agnið. Að við eltum tískuna og kaupum nýja flík fyrir hvert tilefni, jafnvel fyrir hverja helgi. Framleiðendur hámarka síðan hagnað sinn með því að nota ódýrt hráefni og ódýrt vinnuafl.
Framleiðsla á bómull
Bómullin kýs þéttan jarðveg og til að rækta 1 kg af bómull þarf um 15.000 lítra af vatni. Stærstur hluti bómullarframleiðslu er enn ræktaður með hefðbundum hætti. Bómullarframleiðsla krefst mikillar landnotkunar, orku, vatns og kemískrar efnanotkunar að ógleymdu skordýraeitrinu sem þarf til að plantan vaxi sem hraðast. Framleiðslan hefur því gífarleg áhrif á umhverfið og fólkið sem vinnur við ræktunina. Það þarf um 2700 ltr af vatni til að framleiða einn bómullarbol; það er svipað magn af vatni og ein manneskja drekkur á þremur árum! Höfum í huga að bómullinn er mikið til ræktuð í löndum þar sem vatn er að skornum skammti. Lífslíkur bænda sem framleiða venjulega bómull í Indlandi er sögð vera um 30 ár vegna allra þeirra kemísku efna sem þeir komast í snertingu við á bómullarökrunum. Þessi efni fara út í vatnið og menga nærliggjandi akra sem framleiða mat. Þessi efni menga því fyrir allri fjölskyldu bómullarbóndans, konum og börnum.
Veljum því frekar lífræna bómull hún notar 71% minna vatn og 62% minni orku og bændurnir sem vinna við vottaða lífræna bómullarframleiðslu verða ekki fyrir áhrifum skaðlegra efna. Þess má geta að lífræn bómullarframleiðsla er aðeins um 1% af allri bómullarframleiðslu í heiminum. Hækkum þá tölu!
Misnotkun á konum og vinnuafli
Um 80% af þeim sem vinna við framleiðslu á hraðtísku fatnaði eru konur á aldrinum 18 – 35 ára. Þær þurfa til dæmis að þola ómanneskjulegar vinnuaðstæður, langan vinnudag og fá laun sem duga engan vegin til framfærslu. Í Bangladesh fá þessar konur einungis um 18% af því sem þær þurfa til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.
Endurvinnsla er gott mál, alltaf!
Hægt er að endurvinna 95% af öllum textíl því ættum við alltaf að koma öllum fatnað og textíl í endurvinnslu.
Það er þó mikilvægt að hafa í huga að það núllar ekki út umhverfisáhrifin, betra væri að minna væri framleitt. En vissir þú að sem dæmi þá hafa Kenía, Úganda, TanzanÍa, Búrundi og Rúanda nýlega tilkynnt að þau myndu stöðva innflutning á notuðum fatnaði frá vesturlöndum árið 2019? Tilgangurinn með innflutningsbanninu er að fjölga störfum við innanlands framleiðslu. Þau hafa semsagt fengið nóg af því að taka við notuðum fatnaði frá okkur í vesturlöndum!
Hugsum málið núna, einmitt þegar mestu söluvikur ársins fara í hönd.
Viljum við breyta okkar eigin hugarfari og neyslu og rækta með okkur betri kaupvisku?
Hvað þurfum við að gera? Hættum að kaupa föt sem við þurfum ekki að nota Gerum við eða breytum og lengjum þannig líftímann Kaupum endingargóð föt Kaupum notuð föt Hugsum áður en við hendum fatnaði og textílvörum Notum þau lengur og notum þau aftur og aftur Komum þeim til annara Förum með þau í söfnunargáma Breytum hugarfarinu og verum með kaupviskuna í lagi |
Vertu með, minnkum fatasóun.
Jenný Jóakimsdóttir
Leiðbeiningastöð heimilanna
Heimildir:
http://aboutorganiccotton.org/
http://labourbehindthelabel.org/campaigns/living-wage/
https://www.huffingtonpost.com/entry/these-african-countries-dont-want-your-used-clothing-anymore_us_57cf19bce4b06a74c9f10dd6?guccounter=1
Greinin birtist í Húsfreyjunni 4. tbl 2018