Hvað er Lyocell, Tencel og Modal?

Margir eru farnir að taka  eftir þessum heitum á flíkunum sínum.  En hvaða vefnaður er þetta? Skoðum það aðeins, gæti þetta verið svarið við sjálfbærari textílframleiðslu?

Vitundarvakning um fatasóun - fræðsla

 

eucalyptus 2734066 1280

Úr hverju er Lyocell?

Lyocell eru gervi trefjar, unnar úr sellulósa sem unnin er úr viðarmassa. Trjátegundin sem notuð er í því ferli er tröllatré (eucalyptus) , en tré eins og eik, birki eða bambus er einnig hægt að umbreyta. Í Lyocell. Lyocell er sjálfbærari valkostur en viskós segja framleiðendur. En hvernig þá?

Hvernig er því breytt í efni?

Eftir uppskeru er viðurinn brotinn niður í litlar flísar og síðan umbreytt í kvoðu. Lífrænn leysir er notaður í þessa umbreytinga í stað efna sem eru hættulegar umhverfinu. (Öfugt við viskós þar sem ýmis kemísk efni eru notuð við framleiðsluna). Þessari blöndu er síðan þvingað í gegnum spuna, þannig að úr verða verða langar og þunnar trefjar. Í ferlinu sem þróað er af  Lenzing (með höfuðstöðvar í Austurríki) sem er aðalframleiðandi Lyocell, er 99% af leysinum endurheimt í lokaðri hringrás og flutt aftur inn í framleiðsluferlið.

Hver er munurinn á Lyocell, Tencel og Modal?

Öll þessi nöfn geta verið ruglingsleg. Lyocell og Tencel eru sami hluturinn, Tencel er bara vörumerkið fyrir Lyocell ferlið. Modal er í raun nokkuð svipað Lyocell, eru bæði úr sellulósa úr trjám en munurinn á þeim er í umbreytingarferli Modal. Báðar eru þessar trefjar mjúkar en þynnri og léttari efni eru oft gerð úr Modal. Höfum samt í huga að Modal er ekki sama og Modal!  Good on you segir okkur að velja Modal framleitt af Lenzing. Nýju TENCEL™-Modal trefjarnar eru framleiddar með Indigo tækni sem notast við verulega færri auðlindir og hlaut umhverfismerki ESB fyrir að uppfylla háa umhverfisstaðla!   

Hverjir eru eiginleikar Lyocell?

Lyocell gleypir raka betur en bómull og andar.

Það er mjúkt og þægilegt, svipað og silki.

Lyocell eru mjög þolnar og teygjanlegar trefjar.

Gott fyrir viðkvæma húð, vegna þess að það er án ofnæmisvaldandi efna, er bakteríudrepandi og hlutleysir lykt.

Það þornar fljótt og þarf ekki að strauja það.

Hvað með sjálfbæra þætti þessara efna?

Skógarnir sem trén koma frá eru sérstaklega ræktaðir fyrir framleiðslu Tencel, eru lífrænt ræktaðir og vottaðir. Þessi tré vaxa hratt og notuð eru lönd sem eru óhæf til matvælaframleiðslu. Auk þess er ekki þörf á áveitu eða skordýraeitri við vöxtinn.

Framleiðslan er lokað hringrás sem þýðir að mikið magn af leysi og vatni er endurheimt og notað aftur. Tencel trefjar eru einnig lífbrjótanlegar.

Leysirinn sem notaður er í ferlinu er ekki eitraður.

Framleiðsla á Lyocell er fljótleg, tekur aðeins nokkrar klukkustundir.

Orka er nauðsynleg, auðvitað, það er neikvæði hluti Lyocell framleiðslu. Lenzing er að reyna að draga eins mikið úr orkunotkun og hægt er. Þeir eru að þróa líforku sem framleidd er með því að brenna „afganginn“ í skóginn og mynda þannig varmaorku. Hins vegar eru margar verksmiðjurnar enn fyrst og fremst að nota jarðefnaeldsneyti.

Trén þurfa ekki áveitu til að rækta þau. En kælivatn er notað meðan á umbreytingarferlinu stendur. Þetta vatn er ekki efnafræðilega breytt og skilar sér aftur til náttúrunnar, eða er endurheimt og notað aftur. Einnig, samkvæmt Lenzing, þarf Lyocell tæknin aðeins þriðjung af vinnsluvatninu sem notuð er við viskósuframleiðslu.

Er Tencel sjálfbærara en bómull?

Uppskeran af Tencel er 10 sinnum hærri en uppskeran af bómull fyrir sama ræktaða svæði. Með um það bil 2000 m2  af tröllatré er hægt að framleiða 1 tonn af Lyocell trefjum en til að framleiða 1 tonn af bómull þarf um 10.240 m2 af bómullaruppskeru. Úr 6m2 af tröllatré, er hægt að framleiða 10 stuttermaboli á móti aðeins 1 stuttermabol með 6m2 af bómull.

Tencel notar mun minna vatn en bómull sem þarf stöðuga áveitu.

Ólífræn bómull þarf mikið af eitruðum varnarefnum á meðan Lyocell viðurinn kemur úr skógi sem er ræktaður án nokkurra efna og hann umbreyttur með náttúrulegum leysiefnum.

Tencel er dýrara en bómull en ávinningurinn er klárlega sá að það er þess virði að fjárfesta í Tencel frekar en í ólífrænni bómull.

Trefjar úr tröllatrjám tikka í flest alla sjálfbærni kassana, allt frá umhverfinu, til dýra og fólks.

Svo lengi sem trén eru ræktuð á sjálfbæran hátt og að framleiðsluferlið fari fram á ábyrgan hátt. Það er þó alltaf þess virði að spyrja vörumerki nokkurra spurninga til að tryggja að enginn grænþvottur sé í gangi og að hlutir sem þú ert að kaupa byggi á virðingu fyrir fólki og umhverfi.

 

 

Verkefni Kvenfélagasambands Íslands Vitundarvakning um fatasóun er styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Jenný Jóakimsdóttir/2022

  • Thursday, 05 maí 2022