Efnafræði þrifanna - pH gildi hreinsiefna

Basískar lausnir eru betri í að ráðast gegn óhreinindum, fitu, prótínum og öðrum lífrænum efnum. Súrar lausnir vinna betur á kalki, ryði og öðrum steinefnum. Að þekkja pH gildi efnanna getur því verið gagnlegt.

Efnafræði þrifanna - pH gildi hreinsiefna

Sýrustig (hugtakið pH-gildi er notað þegar tala er tilgreind) er í efnafræði mælikvarði fyrir hversu súr vökvi er. Gildi frá 0 til 7 tákna súra lausn, þ.e. sýru (því súrari sem gildið er lægra), gildið 7 táknar hlutlausa lausn, og gildi frá 7 og upp í 14 táknar basíska lausn (því basískari sem gildið er hærra).  Af wikipedia.

Nánar um sýrustig á Vísindavefnum:

Vatn er hlutlaust og er með pH gildi 7.

Margir muna eftir þessu úr efnafræðinni í skóla, allavega þeir sem fylgdust vel með.   En þó svo að efnafræði sé ekki eitthvað sem þú ert að spá í dags daglega þá er þetta góður lærdómur sem gott er að vita og þekkja þegar kemur að þrifum og blettahreinsun.

Hér kemur því smá upprifjun sem gagnast öllum.  Þú ættir því að lesa til enda.

Basískar lausnir eru betri í að ráðast gegn óhreinindum, fitu, prótínum og öðrum lífrænum efnum.  Súrar lausnir vinna betur á kalki, ryði og öðrum steinefnum. Að þekkja pH gildi efnanna getur því verið gagnlegt.

Dæmi: Kattarhland er á súra skalanum, en þegar það þornar breytist pH gildið í basískt. Að þrífa kattarhland með basískri lausn hefði því lítil áhrif. Betra væri því að nota súra lausn til að hlutleysa hlandið.   Þess vegna virkar Edik svona vel á kattarhland.

Basískar lausnir með pH gildi hærra en 7 gagnast best til að þrífa:

  • Fitug gólf
  • Óhreina veggi
  • Tjöru
  • Vélar og verkfæri
  • Vélarolía, díselolía, ásafita
  • Matarolíu
  • Háfana í eldhúsinu
  • Bakaraofna

  Súrar lausnir með pH gildi lægra en 7 gagnast best til að þrífa:

  • Vatnsbletti
  • Ryð
  • Kalk áfellingar
  • Kalkstein
  • Innan í uppþvottavélina
  • Salerni
  • Sturtuklefa
  • Þvagskálar

Við viljum nota umhverfisvæn efni til að þrífa. Leiðbeiningastöðin mælir með svansmerktum hreinsiefnum.  Borðedik og matarsódi er líka tilvalin hreinsiefni á heimilinu en gæta þarf þess að nota ekki edikið á hvað sem er þar sem það er ætandi.   Mild sápa er best við flest dagleg þrif.

Því miður höfum við verið að fá fyrirspurnir og sögur af því þegar hreinsiefnin sem notuð eru, eru jafnvel að skemma innréttingar og gólfefni. 

Klór: pH 11 til  13

Klór er bleikiefni og fer næstum því eins hátt á pH skalanum og hægt er. Semsagt mjög basískt. Það er mjög ætandi og nauðsynlegt er að lofta vel út þegar klór er notaður. Klór er ekki hægt að nota hvar sem er og getur t.d. á andartaki gert göt á fatnað. Aldrei ætti að blanda klór saman við önnur hreinsiefni. Getur verið hættulegt við innöndun. Klór er hinsvegar góður til að bleikja (hvítta) og fjarlæga bletti (í hvítum fatnaði).

Klór er ekki hreinsiefni, klór er sótthreinsiefni og ætti að nýta til að drepa sýkla og örverur, ekki til að fjarlægja óhreinindi. Þessvegna setjum við gjarnan borðtuskurnar í klórblöndu.  Margir nota klórblöndu við þrif á baðherbergjum til að sótthreinsa og losna við sýkla, en ef klór er til dæmis notaður á vaskinn til að þrífa bletti í burtu, þá mun klórinn ekki taka óhreinan blettinn, en vaskurinn yrði samt sem áður laus við sýkla. Klór ætti að fara afar varlega með og getur skaðað húð og er hættulegur við innöndun. Klór getur eyðilagt yfirborð ýmissa efna og fjarlægir lit.

Ammóniak: pH 11 to 12

Ammoníak er annað mjög basískt efni og pH gildi þess er í kringum 12. Ammóníak er líka mjög ætandi eins og klórinn. Aldrei ætti að blanda Ammóníak við önnur efni. Ammóníak ætti eingöngu að nota við mjög erfiða bletti sem önnur efni hafa ekki virkað á. Í raun er Ammóníak svo eitrað að maður ætti alls ekki að nota það heima hjá sér. Bara lyktin af Ammóníak blöndu getur verið skaðleg.

Ofna hreinsir: pH 11 to 13

Flestir ofna hreinsar eru jafn basískir og Ammóníak. Þeir virka því vel til að ná erfiðum viðbrenndum óhreinindum úr ofnum. Þegar ofna hreinsar eru notaðir ætti alltaf að fara mjög gætilega og nota hanska og loftræsta vel.

Betri umhverfisvænni leið til að þrífa ofna er brúnsápa eða matarsódi. Blandið vatni saman við matarsóda og búið til þykka blöndu sem hægt er að smyrja inn í kaldan ofninn. Látið bíða í góða stund og nuddið svo með grófum svampi. Gott að nota spreybrúsa með vatni til að bleyta aftur upp í matarsódanum ef óhreinindin eru mikil.  Hægt að endurtaka nokkrum sinnum áður en matarsódinn er fjarlægður með blautri tusku. Hægt er að spreyja smá borðediki á matarsódann þannig að hann freyði smá til að hjálpa til í lokin. Hafa skal í huga að það er aðeins á þessu augnabliki sem freyðir sem edikið virkar á matarsódann.  Þegar hættir að freyða erum við eingöngu með lausn sem er að mestu leyti vatn og salt.

Þegar notuð er brúnsápa í ofninn er sápan borin á alla fleti í ofninum. Látið bíða um stund og svo nuddað.    

Umhverfisvæna leiðin er kannski ögn seinlegri á ofninn en algjörlega hættulaus fyrir þig og umhverfið. Þessvegna er miklu sniðugra að þrífa bakaraofninn reglulega svo vinnan verði léttari.

Matarsódi: pH 8 til 9

Matarsódinn er líka basísk lausn. En bara rétt svo. Vegna þess að matarsódinn er basískur en ekki nægilega basískur til að vera ertandi þá er hann frábær kostur til að nýta á margan hátt við þrifin á heimilinu.

Matarsódann er hægt að nota til dæmis til að:

Hreinsa niðurföll

Matarsódinn er frábær í niðurfallið með rennandi heitu vatni. Hreinsar frískar og tekur lykt.

Í þvottavélina

Matarsódi er tilvalinn til að fríska upp á þvottinn og er líka fínn sem mýkingarefni. Hann er líka fínn til að eyða lykt úr þvotti. Einnig hægt að nota hann til að þrífa þvottavélina.

Í ísskápinnn

Bæði til að þrífa ísskápinn og eyða lykt.

Á pottana og pönnurnar

Matarsódinn er tilvalin til að þrífa verðmætu pottana okkar og pönnurnar, hann er nægilega mildur til að fara vel með og hreinsa viðbrennt yfirborð þeirra. 

Í örbylgjuofninn

Matarsódinn er frábær til að hreinsa burtu bletti, óhreinindi og lykt úr örbylgjuofninum, hann virkar vel á bæði fitu og jafnvel bletti eftir tómatsósu.  

Í ofninn sjá að ofan

Í uppþvottavélina

Matarsódann er hægt að nota með Bórax í stað hefðbundins uppþvottaefnis. En algengast er að nota matarsódann einan og sér í vélina tóma til að fríska upp á vélina og fjarlægja uppsöfnuð óhreinindi.

Í ruslafötuna

Sáldrið smá matarsóda í botninn á ruslafötunni til að koma í veg fyrir lykt.  Síðan hægt að nota matarsódann þegar komin er tími á að þrífa ruslafötuna.

Til að þrífa rúmdýnuna

Stráið matarsóda yfir dýnuna og látið bíða í góða stund, jafnvel yfir nótt svo ryksugað upp.  Má líka setja á dýnuna og undir lakið og sofa á því nokkrar nætur og ryksuga svo upp.

Borðedik: pH 2.0 – 2.9

Borðedik er súr lausn, og er notað í matvæli til að sýra.

Algengast er að finna borðedik sem blönduna 5% ediksýra á móti 95% vatni. Þó svo borðedik sé þynnt ediksýra þá er borðedik samt ætandi og ætti að farlega varlega í notkun þess. Vegna sótthreinsandi eiginleika þess er borðedik gott til að drepa til dæmis örverur vegna myglu og sveppagróður til dæmis á flísum inni á baðherberginu eða í gluggakörmum. Sýran í edikinu virkar vel á steinefni og þar með vel á kalk útfellingar á flísum og í sturtunni og baðkarinu.  Borðedik er súr lausn og ætti því að nota gætilega. Betra er að þrífa með mildri sápu, t.d. jurtasápu (Castile sápu), brúnsápu eða uppþvottalegi. Skoðið hér hvar ætti alls ekki að nota borðedik til að þrífa. 

Það var óskemmtilegt að fá símtal í símatíma Leiðbeiningastöðvarinnar frá konu sem notaði eingöngu borðedik til að þrífa í eldhúsinu og skemmdi bæði marmarann á borðplötunni og hvítu háglans innréttinguna sem var öll orðin mött. Þarna hefði hún eingöngu átt að nota milda sápu og heitt vatn.

Sítróna: pH 2.3

Sítrónan er súr lausn einsog borðedikið og gagnast því við þrif á steinefnum eins og kalki á baðherbergjum og sturtuklefum. Sítrónan er oftust notuð við þrif með salti en það er til að fá slípieiginleika saltsins með í þrifin. Sítrónan er líka náttúrulegt bleikiefni og nýtist vel á bletti í ljósum flíkum.

 

Athugið að það eru margir slípimassar til hreingerninga á markaðnum og til margs nýtilegir en passa þarf að yfirborð hlutanna sem verið að þrífa þoli massan og rispist ekki. Einnig ætti ekki að nota slípimassa á leðurhúsgögn það skemmir náttúrulega olíuna sem er í leðrinu og ver það.

 

 

 

 

  • Wednesday, 20 desember 2017