Berjatíð

Nú er berjatíð. Tilvalið er að drífa sig í berjamó og njóta svo afrakstursins og gera sultur, saft og hlaup.

Krækiber
Krækiberjalyng er algengast í þurrlendi s.s. brekkum og móum. Það blómgast í maí-júní en berin eru fullþroska eftir miðjan ágúst. Á vaxtartímanum verða berin fyrst græn (grænjaxlar), síðan rauð og loks svört. Þau eru harðger og finnast víða um land.
Úr þeim er gerð saft eða hlaup og nota verður hleypiefni í hlaupið.

Aðalbláber
Aðalbláberjalyng vex í skógarbotnum, móum og lautum. Þau eru algengustu á norðanverðu landinu og á Vestfjörðum. Lyngið vex í skógum, lautum og mólendi. Það blómgast í júní og eru berin fullþroska eftir miðjan ágúst. Fer að vísu eftir árferði. Berin eru blásvört, rauð að innan og bragðmikil.
Úr þeim eru gerðar sultur, hlaup og saft. Mjög góð í bökur og ekki síðri ein og sér með rjóma. Ágætiste fæst af laufunum.

Bláber
Bláberjalyng er að finna víða um land, þá sérstaklega í vot- og mólendi.
Bláberjarunninn blómgast í maí - júní og ræður árferði miklu um þroska berjanna, sem eru fagurblá að lit.
Úr þeim má gera sultu, hlaup, saft og nota í bakstur og súpur eða grauta. Bláber eru ekki eins sæt og aðalbláber og þarf því heldur meiri sykur í lögun af þeim.

Hrútaber
Þau eru að finna í skógarbotnum og í gróðursælum brekkum víða um land. Berin eru þroskast fremur seint, eru fallega rauð, safamikil og súrsæt á bragðið.
Einstakleg góð í hlaup.
Þó nokkuð er á sig leggjandi að finna ber í hlaup með villibráðinni.

Rifs- og sólberjarunnar
Nokkuð algengt er að rækta þá í görðum hér, þó einkum rifsið, sem er harðgerðara. Sólberjarunnar gefa besta uppskeru á sólríku sumri.
Best er að tína berin áður en þau verða fullþroska, seinni hluta í ágúst, því grænjæxlarnir gefa hleypiefni (pektín) og eins er gott að hafa stilka og blöð með.
Hvoru tveggja mjög góð í hlaup og saft og sólberin í sultur. Upplagt er að frysta nokkrar greinar með rifsberjum og nota til skreytinga á jólasteikina.

Reyniber
Eru víða í görðum og eru tínd að hausti þegar þau eru orðin fallega rauð og ekki verra að næturfrost hafi verið áður.
Hlaup af reyniberjum er mjög gott, en það þarf að leggja þau í bleyti í 3 sólarhringa (skipta um vatn daglega) til að ná burtu remmubragði sem af þeim er. Nota þarf hleypiefni.

Ber eru rík af c-vítamíni, steinefnum og andoxunarefnum og eru jafnvel talin hafa lækningamátt.

Að frysta ber
Þau má frysta í sykurlegi, þurrsykruð eða maukuð. Í góðu lagi er að frysta flest ber í hæfilegum skömmtum án sykurs. Hreinan berjasafa er tilvalið að frysta í litlum skömmtum og nota eftir hendinni.
Í sykurlegi: Þá er soðinn lögur úr  5-7 dl. af strásykri á móti liter af vatni. Hann kældur og er notað 5-6 dl. af legi á hvert kilo af berjum. Hafa skal um 2. cm borð á ílátinu því lögurinn þenst út við frystingu.
Þurrsykruð: Þá er blandað 2-3 dl. af strásykri saman við hvert kilo af heilum berjum. Sett í plastpoka og fryst. Það má líka mauka berin og bæta sykri út í. Ágæt hlutföll eru 2-3 dl sykur á móti kílói af berjum. Ekkert að því að blanda saman t.d. bláberjum og rifsberjum.
Geymsluþol berja er um ár í frosti. Sé sykur á berjunum, skal láta þau þiðna hægt í lokuðu íláti og nota þau rétt áður en þau eru fullþídd.
Ef berin eru í sykurlegi, eiga þau að þiðna hægt í kæliskáp.
Krækiber og rifsber má frysta án sykurs.

  • Friday, 26 október 2012