Byrja að laga súrdeigið ca 10-14 dögum áður en það skal notað.
Allt sem í það á að fara er hrært vel saman í skál, gjarnan með pískara.
Geymt í skálinni með viskustykki yfir við stofuhita í 10-14 daga og hrært í skálinni einu sinni á dag. Þegar þessir dagar eru liðnir lyktar vökvinn eins og dökkt öl og er þar með tilbúinn til notkunar.
Viðhald deigsins
Nú er vökvinn geymdur í kæliskáp og áður en hann er notaður er best að taka hann út deginum áður.
Þá er tekið af honum í uppskrift eins og segir til um og farið eftir leiðbeiningum þar um.
Í hvert sinn sem tekið er af honum á að setja sem svarar helming af upphaflegu innihaldi og þannig er súrdeiginu haldið við.
Gæta skal vel að því að lyktin haldist góð, má ekki verða of edikskennd. Það eru mjólkursýrugerlar sem eiga að vera yfirgnæfandi, þeir gefa brauðinu gott bragð en edikssýrugerlar gera brauð beiskt.
Gott ráð til að koma hefingu af stað í súrdeigsbrauði er að setja smáögn af pressugeri í upphafið, en ekki nauðsynlegt.
Fyrri hefing fer þannig fram að deigið fer í ísskáp í 1 sólarhring. Ekki þarf að hnoða deigið upp aftur heldur setja í form og látið hefast í 3-4 klst í stofuhita. Látið hefast þangað til það nær tvöfaldri stærð.
Algengur baksturstími á súrdeigsbrauði er 25-30 mínútur.