Mjúkir hvítir kökubotnar

5.0/5 rating 1 vote
 • Complexity: medium
 • Origin: Kökur
Mjúkir hvítir kökubotnar

Ingredients

 • 2 2/3 bollar hveiti
 • 1 ½ bolli sykur
 • 1 msk og 1 tsk lyfitduft
 • ½ tsk salt
 • 4 eggjahvitur
 • 1 ½ bolli mjólk
 • ½ bolli matarolía
 • 1 tsk vanilla

Directions

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180°
  2. Smyrjið og sáldrið hveiti í bökunarformin, tvö form eða eitt stórt springform, gott að klippa til bökunarpappír til að setja í botninn.
  3. Blandið sama hveiti, sykri, olíu, lyftidufti (gætið að því að það sé ferskt, svo kakan hefist nógu vel), salti, vanillu og helmingnum af mjólkinni.
  4. Blandið síðan eggjahvítunum og restinni að mjólkinni saman við. Setjið eggjarauðuna með ef kakan þarf ekki að vera alveg ljós. (gefur extra raka) og hrærið þar til allt er vel blandað saman. Fyrst þegar ég gerði þetta deig fannst mér þetta hálf misheppnað því það voru kekkir í deiginu, en það virðist ekki hafa neina áhrif þegar hún er svo bökuð. Hún kom ótrúlega mjúk og djúsí úr forminu samt.
  5. Setjið nú deigið í formin/formið og bakið í um 30 mín. Athugið hvort kakan er alveg bökuð með því að stinga í hana prjón eða tannstöngli, gæti þurft meiri tíma ef notað bara eitt form. Betra að kanna stöðuna fyrr en seinna til að hún verði ekki of þurr.
  6. Kælið kökuna í um 10 mín í forminu áður en þið takið hana úr.
  7. Kælið kökuna alveg áður en þið byrjið að skreyta hana. Fínt að baka hana deginum áður og vefja hana vel inn í plastfilmu þegar hún er orðin alveg köld.
  8. Ef notað er eitt form, sem mér finnst betra því þá er bara einn toppur til að skera af til að fá hana alveg jafna. Botninn er þá skorin í sundur í miðju, til að fá tvo botna. Tvöfaldið uppskriftina og bakið í tvennu lagi ef þið viljið háa köku og fjóra botna.

  Smjörkrem:

  Það eru til margar mismunandi uppskriftir að smjörkremi en grunnurinn er alltaf sá sami þ.e. smjör og flórsykur.

  Ég nota yfirleitt 500 gr af smjöri á móti 400 gr af flórsykri. Eitt stk smjör á móti einum pakka af flórsykri.  Athuga að þegar sprautaðar eru rósir á kökur þá þarf töluvert af smjörkremi.  Þessvegna stækka ég oft uppskriftina. Það er ótrúlegt fljótt að klárast ef maður er að sprauta rósum yfir alla kökuna.  Sumir setja eina eggjarauðu í kremið og ca 1 – 2 tsk af vanillu eða sítrónudropum. Nota frekar eggjahvítu og hvítan matarlit ef ég vil kremið alveg ljóst. Sjálfri finnst mér kremið verða betra á bragðið ef ég nota sítrónudropa. Ef kremið er of þykkt þá set ég annaðhvort smá vatn eða smá af rjóma.  Rjóminn er betri en þá geymist kakan ekki eins vel. Smjörkrem þarf að þeyta vel til að það blandist vel saman og verði ekki of mikið smjörbragð af því. Það þarf líka að vera það þykkt að hægt sé að sprauta því svo vel sé. Prófið ykkur áfram, þeytið meira ef þarf og setjið vökva eða meiri flórsykur ef þarf til að ná réttri áferð. Þegar settur er matarlitur í kremið er það gert í lokin.  Ef ég er að nota marga liti þá byrja ég á að sprauta með ljósa litnum og dekki svo kremið smátt og smátt, þannig nýtist kremið best.  Eða skipti kreminu í þeim hlutföllum sem ætlunin er að hafa litina í.

  Til að gera kökuna enn bragðmeiri þá hef ég til dæmis sett Súkkulaði ganache og t.d. niðurskorin jarðaber á milli.  Finnst of mikið að setja líka smjörkrem á milli botnanna.

  Það er einfalt að gera súkkulaði Ganache, þá er rjómi hitaður að suðu og súkkulaðið sett út í í litlum bitum og hrært á meðan súkkulaðið bráðnar.

  Hlutföllin eru:

  100 ml rjómi og 200 gr súkkulaði (venjulegt suðusúkkulaði)

  Ef notað er mjög dökkt súkkulaði 56% eða hærra eru hlutföllin 300 gr súkkulaði á móti 150 ml af rjóma.

  Ef notað hvítt súkkulaði eru hlutföllin 300 gr súkkulaði á móti 100 ml af rjóma.

  Súkkulaði Ganache geymist vel í nokkra daga. Það er líka oft notað til að setja á milli makkaróna. 

  Það er fullt af myndböndum til á netinu sem sýna hvernig maður sprautar rósir og annað úr smjörkremi. Um að gera að kíkja og æfa sig.  Alltaf gaman að bera fram flottar kökur sem eru líka bragðgóðar.

  Þessa uppskrift datt ég niður á eftir mikla leit að hinum fullkomna hvíta botni fyrir 5 ára afmæli dóttur minnar. Hún heppnaðist svo vel að ég gerði hana nokkrum sinnum í sumar.  Var áður búin að prufa aðrar uppskriftir sem mér fannst alltaf vera annaðhvort mjög þurrar eða hreinlega bragðast einsog og ekki neitt.

  Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu.

  Þessi var gerð sem desert í 22ja ára afmæli sonarins.

  fana kaka

  Skellti í þessa að gamni fyrir HM í sumar

  20180616 115724

  kokubordid

  5 ára afmæli dótturinnar, hún vildi hafmeyju köku svo ég skellti nokkrum hafmeyjum og skrauti á priki ofan á kökuna.

   

  2018/Jenný Jóakimsdóttir

Leiðbeiningastöð heimilanna

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 1135;
lh@leidbeiningastod.is