Vorhreingerningar

 

VorhreingerningarBorðedik: Oft kallað glært edik er lífrænt þ.e. þynnt ediksýra. Borðedik klýfur fitu og nær fram gljáa og eyðir vondri lykt.  
Rúðuúði: Blandið vatni og ediki,1 hl. edik ámóti 10 af vatni í blómaúðabrúsa og úðið á gler og spegla. Þurrkið vel og strjúkið yfir með gömlum krumpuðum dagblöðum. Prentsvertan eykur gljáa. 
Salernishreinsir: Ediki er hellt í skálina og látið liggja yfir nótt. Burstað vel og sturtað niður.Ef þvottur lætur lit er gott að leggja hann í bleyti í vatn með ediki , 4 msk af ediki í 5 l vatni. Látið liggja í ca ½ klst. Skolað og þvegið á venjubundin máta. Eins má setja dálítið af ediki í þvottavélina í stað þvottaefnis til að flík haldi betur lit sínum. 

Lykteyðir

Vond lykt í íbúðinni. Setjið borðedik í skál og látið standa á eða nálægt ofni. 
Ef vond lykt er af skurðarbrettum er gott að skrúbba þau upp úr ediki og skola vel.
Kaffivélar má þvo með því að láta edik í stað vatns í vélina og láta hana ganga. Endurtekið tvisvar með vatni til að eyða edikslyktinni. 
Ef vond lykt er úr ískápnum er gott ráð að þvo hann upp úr ediksvatni og skola vel á eftir. 
Þegar eldaður er lyktsterkur matur eins og t.d. skata er gott að vinda viskustykki uppúr ediki og leggja yfir pottlokið og vel út fyrir brúnir þess. Gæta samt vel að það snerti ekki eldavélahelluna.
Kattahlandslykt hverfur ef úðað er á blettinn ediksblönduðu vatn (1 hl. Á móti 5).

Þrif á flísum og sturtuklefum. Það er nauðsynlegt að þrífa baðherbergi og eldhús reglulega.

Til að þrífa flísar er gott að nota borðedik og uppþvottalög.

  • Sýran í edikinu nær kalkinu og uppþvottalögurinn nær húðfitunni sem safnast á flísarnar.
  • Blandað þannig: Tveir hlutar af uppþvottalög á móti einum hluta af borðedik í spreybrúsa.
  • Byrjað er að úða á flísarnar með sturtuhausnum, gerir fúguna móttækilegri fyrir edikinu án þess að skemma.
  • Spreyja edik og uppþvottalögsblöndunni á flísarnar og leyfa því að vera á í ca. 30 mín.
  • Ef þörf er má skrúbba með bursta yfir flísar og fúgu.
  • Síðan skolað með vatni og þurrkað með hreinum og þurrum klút.
  • Til að ná mjög erfiðum blettum og kalki af flísum og fúgu, er hægt að setja edik í svamp og nudda yfir, eða hálfa sítrónu sem er nuddað á fúguna. Athugið að fúga og flísar þurfa að vera vel rakar áður en þetta er gert.

Aðrar leiðir fyrir mjög erfið óhreinindi á fúgu er að nota fúgustrokleður, þau í raun rispa upp óhreinindin úr fúgunni.
Flísaverslanir selja mörg góð umhverfisvæn efni til að hreinsa flísar.
Við bendum t.d á Undra flísahreinsir, sem er íslensk umhverfisvæn framleiðsla og hefur verið að fá góða umsögn.

 

Sítróna er náttúrulegt bleikiefni

Sítróna eyðir fitu og gefur ferska og góða lykt. Hún er líka áhrifarík við að þrífa kísil sem vill setjast í kringum blöndunartæki á baði og í eldhúsi. Einfaldast er að skera sítrónu í tvennt og nudda eða bera á óhreinindin, láta bíða um stund, skrúbba með bursta og skola vel með köldu vatni og þurrka. 
Sama er að segja um sturtuklefa, en þeir vilja verða gráir og mattir af kísilnum úr hitaveituvatni. Nudda vel með sítrónu eða þvo með ediksblöndu. Láta liggja á og skola vel á eftir. Fyrirbyggjandi ráð er að gera sér að reglu að skola klefan eftir notkun með köldu vatni og helst þurrka líka.
Nýja ávaxtabletti í fötum er gott að nudda með sítrónuhelmingi og skola vel og þvo á eftir.
Sítróna er góð til að þrífa t.d. ísskáp og örbylgjuofn. Best er að setja skál með vatni og skera sítrónu í sneiðar út í og setja í örbylgjuofninn, stilla á hæstu stillingu í 2 mínútur. Þá hafa óhreinindin losnað og ekki annað eftir en að strjúka ofninn að innan, með rökum klút og þurrka síðan.


Flísar á baði og í eldhúsi verða skínandi hreinar ef þær eru nuddaðar með sundurskorinni sítrónu, látið liggja á svolitla stund og skolað vel á eftir og þurrka. 
Edik og sítróna eru gagnleg á áfallin kopar. Þá er best að úða hlutin með ediksblönduðu vatni og salti. 
Skera má sítrónu í 2 hluta og hafa gróft salt við höndina og nudda hlutinn með því. Láta bíða um stund og pússa síðan.
Ólykt úr sorpkvörn hverfur ef ef sítrónubörkur er látin ganga í gegnum kvörnina. 
Sítrónudropar (bökunardropar) duga vel til að hreinsa límrestar af gleri.

Matarsódi og lyftiduft

Lögur á silfurhluti, sem auðvelt er að margfalda:
1 tsk. matarsódi
1 tsk lyftiduft
2 ½ dl soðið vatn (ekki nota hitaveituvatn). 
Allt sett í plastílát, hrært vel í. Hlutirnir settir út í, látnir standa um stund. Skolað úr köldu vatni og fægt með mjúkum klút. 

Matarsódi eyðir vondri lykt t.d. úr skápum, þá er best að setja 2-3 tsk í lítið ílát og láta standa í skápnum í nokkra daga. 

Til að þvo eldhúsbekki og veggflísar er gott að strá matarsóda á rakan svamp og þurrkar yfir, nær mjög vel fitu. Þurrka yfir með hreinu vatni. Blóðblettir geta verið erfiðir, en matarsódi hrærður með vatni í þykkan graut gerir gagn. Þá er „grauturinn“ borin á blettinn og látin þorna. Burstað af og þvegið. 

  Athugið!

Aldrei blanda saman matarsóda og ediki.
Matarsódinn er basískur og edikið er súrt.
Með því að blanda matarsóda og edik saman færðu lausn sem er að mestu leyti vatn og örlítið salt.
Auk þess veldur edikið því að matarsódann fer að freyða, og ef blandan er geymd í lokuðu íláti getur hún sprungið.

Aldrei blanda saman klór og ediki.
Blandan gæti hljómað sem öflugt sótthreinsiefni, en ætti aldrei að blanda saman.
Klór og edik blanda myndar klórgas, sem jafnvel í litlu magni getur valdið hósta, öndunarerfiðleikum og sviða í augum.

  • Wednesday, 17 febrúar 2016