Kryddjurtir

BasilíkaSumarið er tími ferskra kryddjurta og gaman að geta nota heimaræktað krydd í matseldina. Það er ekki ýkja flókið mál að rækta slíkar jurtir sjálfur, kostar að vísu smá natni og ummönnun, en sú vinna skilar sér margfalt til baka. 

Þurrkað krydd er gott, en ferkst er enn betra. Kryddjurtir eru hollar og margar þeirra taldar hafa lækningamátt, svo að þær gefa okkur ekki einungis gott bragð í matinn, heldur hollustu og heilbrigði að auki. Svo ilma þær alveg dásamlega.

Skemmtilegt er að sá sjálfur fyrir kryddjurtum.
Þá þarf að huga að því snemma vors, en fljótlegra auðvitað að kaupa þær forræktaðar í pottum.
En gætið að því að þessar jurtir eru fjöldaframleiddar og verða oft fyrir hálfgerðu áfalli þegar þær eru fluttar úr verslun í heimahús. Til að þær nái sér og verði ræktarlegar þarf helst að umpotta þeim, vökva og koma fyrir á sólríkum og björtum stað s.s. á svölum, í sólskála eða í gluggasyllu.

Sumar kryddjurtir má að sjálfsögðu rækta í kössum og pottum í görðum þar sem skjól er gott.
Þannig erum við komin vel áleiðis með að eiga tiltækt ferskt krydd í matargerðina þegar á þarf að halda.
Oft er betra að vökva sparlega til að byrja með, ofvökvun gerir meira ógagn en gagn, en varast þó  að láta þær ofþorna. Því þarf að fylgjast vel með þeim.

Eins þarf að klippa þær til að auka vöxt og með því móti laufgast þær betur og verða þéttvaxnari.
Verum líka vakandi fyrir að tína visin blöð burt.
Á þeim kryddjurtum sem blómstra s.s. oregano og basilikum þarf að klippa blóm af til að vaxtarþroski jurtarinnar stöðvist ekki.

Auðveldar tegundir til ræktunar heima við:
Basilika, oregano, timjan, sítrónumelissa, merían, rósmarín, kóríander, persilla, mynta, salvía og dill.
Graslaukur má heita ómissandi í matargerð á sumrin og tilvalin að hafa í potti á svölum eða í matjurtagörðum.
 

Heimild:
Camilla Plum, www.dr.dk
 

Til að meðhöndla kryddjurtir rétt og fá hugmyndir um notkun þeirra, skal hér bent á bókina:
Ræktað - kryddað – kokkað eftir Magnús Jónsson (Reykjavík: Ritskinna, 2006).
Í henni er að finna mikinn fróðleik auk leiðbeininga um heimaræktun og notkun ferskra kryddjurta.

  • Friday, 26 október 2012