Hægeldunarpottar
Hægeldunarpottar eru sniðugt tæki í eldhúsið og oft er hægt að fá þá á mjög góðu verði. Þeir bjóða upp á heilsusamlega eldamennsku og eldun í þeim krefst lágmarks fyrirhafnar.
Þeir hafa til þessa verið mikið notaðir í Bretlandi og Bandaríkjunum og eru vinsældir þeirra alltaf að aukast vegna hagræðis, aukinna krafna um heilsusamlega matreiðslu og betri nýtingu hráefnis.
Ef þú vilt koma heim eftir langan vinnudag í heita máltíð, getur þú sett pottinn af stað áður en þú leggur af stað í vinnu á morgnana og potturinn sér um að elda án nokkurar áhættu yfir daginn
Uppskriftir einsog pottréttir og steiktur matur eins og kjöt og grænmeti eru tilvaldar í hægeldunarpottinn, þar sem hæg eldunin gefur einstaklega gott bragð.
Hægt er að baka bæði kökur og brauð og sérstaklega sniðugt að nýta hægeldunarpottinn við sultugerðina.
Við höfum tekið saman nokkur atriði um kosti hægeldunarpotta og hvað þarf að hafa í huga við notkun þeirra.
Þeir spara tíma og fyrirhöfn
Eitt helsta aðdráttarafl hægeldunarpottana er hversu mikið þeir einfalda matreiðsluna. Þeir sem vilja hámarka einfaldleikann ættu að leita að uppskriftum sem krefjast lágmarks undirbúnings. Til dæmis að gera súpur og/eða ýmiskonar pottrétti, en þá er einfalt að skella í pottinn öllu hráefninu. Athugaðu að það getur verið sniðugt að brúna aðeins laukinn áður en þú skellir honum í pottinn, þar sem bragðið verður aðeins öðruvísi ef þú setur hann alveg hráan í pottinn, en um að gera að prófa bæði. Einnig getur verið gott að brúna kjötið áður en sett í pottinn en það er gert eingöngu til að gefa kjötinu smá lit, en það er þó ekki nauðsynlegt og hefur lítið sem engin áhrif á bragð. Ef þú ert tímabundin á morgnana er einfalt að undirbúa allt kvöldinu áður, skella því í pottinn, hylja með matarfilmu og setja inn í ísskáp og geyma þannig yfir nóttina. Þegar þú vaknar tekur þú hann út úr ísskápnum og lætur standa við stofuhita í um 20 mínútur, því best er að hráefnið sé við stofuhita áður en þú kveikir á pottinum og heldur út í daginn.
Sparnaður og betri nýting á hráefni
Hægeldunarpottar eru sniðugir til að elda ódýrari hluta af kjöti. Seigustu bitar verða meirir og ljúffengir í hægeldunarpottinum. Þú getur líka notað minna af kjöti þar sem sem hægeldunin gerir það að verkum að safinn úr kjötinu sem þú notar gefur mun meira bragð við hægeldun. Þú fyllir upp í réttinn með meira grænmeti í staðinn. Um að gera að nota grænmetið sem er farið að slappast, til að minnka matarsóun. Ef þú kaupir heila skrokka af t.d nautakjöti er óþarfi að setja alla rest aðra en steikur í nautahakk. Það er til dæmis hægt að hægelda skanka, mjaðmir, klump og herðablöð í hægeldunarpottinum og fá úr því dásemdis sunnudagsteik. Hægeldunarpottar nýta minni orku en venulegir ofnar eða um 200-200 wött í þriggja til tólf tíma eldun miðað við venjulegan ofn sem notar um 70 wött. Það er því mun hagkvæmara að hægelda steikur og heilan kjúkling. Þá er gott að velja sér sporöskjulaga pott til að steikin passi betur.
Minni fita
Þú þarft ekki að nota olíu í hægeldunarpott, svo framarlega sem þú ert með nægan vökva, þú þarft heldur ekki fituna af kjötinu til að mýkja það, hægeldunin sér um að mýkja kjötið. Því er um að gera að skera fituna í burtu. Venjulega þegar við steikjum kjöt þá rennur hluti af fitunni í burtu, en það gerist ekki í hægeldunarpottinum, því er um að gera að skera sem mesta fitu í burtu. Gefur okkur heilsusamlegri rétt sem verður samt sérstaklega bragðgóður.
Láttu pottinn alveg vera
Hægeldunarpottar eru hannaðir til að sjá um eldamennskuna svo þú þurfir ekki stöðugt að vera að fylgjast með. Í hvert sinn sem þú tekur lokið af minnkar hitinn í pottinum, svo í hvert skipti sem þú tekur lokið af þá ert þú að auka eldunartímann sem rétturinn þinn þarf. Þú skalt því ekki freistast til að lyfta lokinu af pottinum þó ilmurinn sé góður.
Fara varlega í vökvann
Hægeldunarpottar eru með lok sem lokast mjög vel, þessvegna gufar vökvinn ekki í burtu. Ef þú ert að aðlaga venjulega uppskrift að hægeldurnarpotti er gott að hafa þetta í huga og minnka vökvann um þriðjung. Vökvinn ætti bara rétt svo að hylja kjötið og grænmetið. Passaðu að yfirfylla ekki pottinn því þá gæti farið að leka út meðfram lokinu og maturinn eldast þá ekki eins vel. Bestur árangur næst með fylla pottinn ekki meira en hálfan eða tvo þriðju til að forðast þetta, alls ekki meira en þrjá fjórðu. Vegna þess að vökvinn gufar ekki upp, þá þykknar rétturinn ekki heldur. Þú gætir hulið kjötið með smá hveiti og kryddi áður en það fer í pottinn eða notað örlítið af sósujafnara. Ef þú notar Maizena mjöl blandar þú um eina til tvær teskeiðar og hrærir saman við smá kalt vatn. Skellir því svo út i pottinn í lokin á eldunartímanum, settu svo lokið strax aftur á.
Hvenær á að bæta mat í pottinn?
Helst viltu nota uppskriftir þar sem þú getur sett allt eða flest hráefnið í pottinn á sama tíma. Hinsvegar skal hafa í huga að í flestum tilfellum þarf að setja pasta, hrísgrjón og ferskar kryddjurtir í pottin í lokin á eldunartímanum. Oftast eru þó grjón og pasta eldað sér. Rótargrænmeti þarf í flestum tilfellum aðeins lengri eldun en kjöt og annað grænmeti. Settu því rótargrænmetið sem næst hitagjafanum í botninn á pottinum.
Eldunartími:
Ef að réttur með hefðbundinni eldunaraðferð er:
• 15 - 30 mínútur, eldaðu þá í 1-2 klukkustundir á hæstu stillingu eða 4- 6 klst á lægstu stillingu
• 30 – 60 mínútur, eldaðu þá í 2 – 3 klst á hæstu stillingu eða 5-7 klst á lægstu stillingu.
• 1 – 2 klst. eldaðu þá í 3-5 klst á hæsta stillingu eða í 6-8 klst á lægstu stillingu.
• 2 – 4 klst. eldaðu þá í 4 – 6 klst á hæstu stillingu eða í 8- 12 tíma á lægstu stillingu.
Margir hægeldunarpottar hafa stillingu sem heldur heitu þegar eldun er lokið.
Hægeldunarpottar koma flestir í þremur stærðum:
Lítill er um 1,5 – 3 L og eldar fyrir einn eða tvo.
Miðlungs eru 3 -5 L og eldar fyrir um þrjá til fjóra.
Stórir eru um 5 – 6,5 L og elda fyrir fimm manns eða fleiri.
Birtist í Húsfreyjunni 2. tbl. 2016
JJ