Þrif á baðherbergi

Baðherbergi þarf að þrífa reglulega, það er engan vegin nóg að þrífa það af og til. Því þar eiga gerlar og sýklar góðan aðgang. Enginn vill heldur hafa ólykt í baðherberginu. Góð loftræsting skiptir miklu, ef gluggi er á baðherberginu, hað helst alltaf opinn því þá er minni hætta á að raki þéttist þar.

thrif

 

Enginn kísill í kalda vatninu

Hvað getið þið gert til þess að spara ykkur vinnu við þrif seinna meir? Fáið heimilisfólkið til þess að sprauta köldu vatni innan í baðkerið, sturtuna og eins á sturtuklefann ef hverja baðferð. Síðan er gott að strjúka yfir með þurrum klút. Þetta kemur í veg fyrir það að kísill safnist fyrir því það er enginn kísill í kalda vatninu.  Kísill sést oft vel á gleri sturtuklefans, glerið verður gráleitt eins og margir kannast við.

 

Borðedik og sítróna eru góð hreinsiefni

Dýr hreinsiefni eru ekki alltaf þau bestu. Venjulegt borðedik og jafnvel sítróna eru ótrúlega góð og umhverfisvæn hreinsiefni, þó svo þau séu ekki merkt sérstaklega. Oftar en ekki er hægt að ná betri árangri með þessum efnum.

 

Þrif á salerni

Venjulegt borðedik má nota víða og hefu rreynst vel sem salernishreinsiefni. Látið edikið liggja í salernisskálinni góða stund, helst yfir nótt. Burstið síðan vandlega og skolið niður.

 

Ólykt í herbergi

Einföld leið til að eyða ólykt úr herbergi er að nota edik. Setjið venjulegt borðedik í skál og látið standa í gluggakistu eða á ofninum, hitinn frá ofninum flýtir að sjálfsögðu fyrir uppgufun. Hentar sérstaklega vel þar sem fólk er með gæludýr.

 

Gott ráð til að gera handlaugar hreinni.

Notið ferska sítrónu, skerið hana í tvennt og nuddið handlaugina að innan. Látið standa góða stund og nuddið svo aftur ef þarf. Síðan er nóg að skola handlaugina og hún verður skínandi hrein og glerungurinn hvítari. Sítróna er náttúrulegt bleikiefni. 

Til að þrífa flísar er gott að nota borðedik og uppþvottalög.

  • Sýran í edikinu nær kalkinu og uppþvottalögurinn nær húðfitunni sem safnast á flísarnar.
  • Blandað þannig: Tveir hlutar af uppþvottalög á móti einum hluta af borðedik í spreybrúsa.
  • Byrjað er að úða á flísarnar með sturtuhausnum, gerir fúguna móttækilegri fyrir edikinu án þess að skemma.
  • Spreyja edik og uppþvottalögsblöndunni á flísarnar og leyfa því að vera á í ca. 30 mín.
  • Ef þörf er má skrúbba með bursta yfir flísar og fúgu.
  • Síðan skolað með vatni og þurrkað með hreinum og þurrum klút.

 

  • Til að ná mjög erfiðum blettum og kalki af flísum og fúgu, er hægt að setja edik í svamp og nudda yfir, eða hálfa sítrónu sem er nuddað á fúguna. Athugið að fúga og flísar þurfa að vera vel rakar áður en þetta er gert.

Aðrar leiðir fyrir mjög erfið óhreinindi á fúgu er að nota fúgustrokleður, þau í raun rispa upp óhreinindin úr fúgunni.
Flísaverslanir selja mörg góð umhverfisvæn efni til að hreinsa flísar.
Við bendum t.d á Undra flísahreinsir, sem er íslensk umhverfisvæn framleiðsla og hefur verið að fá góða umsögn.

  • Tuesday, 09 febrúar 2016