Sulturáð

Margt þarf að hafa í huga þegar við gerum sultur, mauk, hlaup og saft. Nauðsynlegt  er að þvo og hreinsa krukkur, glös, flöskur og lok mjög vel. Annars geta bakteríur komist á kreik og dafnað, okkur til lítillar ánægju. Það eykur líka geymsluþol að vanda sig við verkið.

 

Sótthreinsun:
Byrjað er á að þvo og þurrka krukkur vel.

1. Sjóða í potti,  hægt að raða lokum á botn í pottinum og hvolfa krukkunum þar ofan á. Sjóða síðan í a.m.k. 10 mínútur.

2. Í bakaraofni má raða þeim á sama máta í kaldan ofn. Stilla síðan á 150° og hita í 10 mínútur.
Raða krukkunum því næst á hreint viskustykki og breiða annað yfir þangað til sett er í þær.

3. Skola með betamoni. Þá er smávegis af betamoni hellt í eina krukku, lok sett á og hrist vel. Hellt í næstu krukku og þannig koll af kolli.
Smjörpappír lagður ofan á sultu og hlaup, klipptur til og bleyttur í betamoni sem hellt er t.d. á undirskál.

Sultu á að hella heitri í heitar krukkur, fylla þær vel og þurrka af börmunum hafi eitthað farið á þá. Loka svo strax, því þá myndast lofttæming þegar sultan kólnar. Þá er óþarfi að nota rotvarnarefni. 

Þó getur það verið mismunandi eftir aðferðinni við sultugerðina og hvort og hvernig hleypiefni er notað.

Það er samspil hleypiefnis (pektíns), sykurs og súrs sem hleypir berja- og ávaxtasafa.

Hleypiefni er í berjum þó mismikið eftir tegundum t.d. mikið í rifsberjum og þá sérstaklega í stilkum og grænjöxlum. Minna er af hleypiefni í bláberjum og mjög lítið í krækiberjum. Því er nauðsynlegt að nota hleypiefni eða eitthvað súrt í lögunina s.s. sítrónusafa eða vínsýru. 2 msk af sítrónusafa passar í 1 kg af berjum.

Hleypiefni er hægt að kaupa í flestum matvöruverslunum:
Rautt Melatín: Notað í lögun eftir að sykur hefur verið settur í t.d. í sultur og hlaup. Loka þarf krukkum strax.
Blátt Melatín:  Notað þegar hlutfall sykurs erminnkað allt að 50%. Það virkar vel þegar bjarga þarf hlaupi sem ekki hefur náð að hlaupa eins og til stóð.
Gult Melatín: Það er búið til úr eplapektíni og virkar aðeins í súrum legi og því sett út í áður en sykurinn fer saman við. Látið kólna áður en krukkunum er lokað.
Grænt Melatín: Er ætlað í sykurlausar sultur og mauk og hentar því fyrir sykursjúka.
Hvítt Melatín: Er án rotvarnarefna og því hefur sulta eða hlaup sem það er sett í lítið geymsluþol en það má frysta þær.
Ath! Farið endilega eftir leiðbeiningum sem eru á pokunum.

Sætuefni - geymsluþol
Strásykur er algengasta sætuefni í sultur og hlaup. Hrásykur og eða púðursykur er líka góður kostur. Sykur virkar sem rotvörn og hefur sykurmagnið því áhrif á geymsluþol.
Ef önnur sætuefni eru notuð takmarkast geymsluþolið og því tlvalið að laga minna í einu og oftar.
Hér má nefna ávaxtasykur Xylitol eða önnur sætuefni fyrir þá sem vilja eða þurfa sleppa sykri. Einnig er gott að sæta með hunangi eða hlynsýrópi.
Ef maður kýs má nota rotvarnarefnið Bensónat eða annað slíkt er 1/2 - 1 msk hæfilegt í hvert kíló.
Sulta má ekki sjóða eftir að það er komið út í.

Hlauppróf
Látið dropa af hlaupi á disk og setjið í kæliskáp smástund. rennið síðan hnífi í gegnum dropann. ef hann helst aðskilinn er hlaupið mátulegt en renni hann saman þarf að sjóða það lengur.

Sultupróf
Setjið trésleif í miðja sultuna í pottinum ef að hún stendur kyrr er nóg að gert en halli hún eða falli á hliðina þarf að sjóða sultuna lengur.

Geymsla

Sultur með háu sykurhlutfalli þola vel geymslu en með minni sykurinnhaldi er ráðlegt að geyma krukkurnar á köldum stað jafnvel í kæliskáp.


Merkingar
Setja miða með dagssetningu og innihaldi á krukkur og flöskur.
Skemmtilega merkimiða er hægt að prenta út á www.dansukker.dk

  • Sunday, 28 október 2012