Vorverkin og viðhald garða yfir sumarið gefur ærið tilefni að koma sér upp safnhaug fyrir garðaúrgang og annan lífrænan úrgang sem fellur til á heimilinu.
Til eru nokkrar leiðir, það er hægt að kaupa tilbúnar tunnur eða kassa. En það er líka hægt að útbúa sjálfur sinn eigin safnhaug eða gryfju.
Hér er nokkuð að vinna, því talið er að úr ca 400 kg af garðaúrgangi úr meðalstórum garði fáist um 200 kg af úrvals góðri gróðurmold.
Safnhaugur/gryfja
Hvað er lífrænn úrgangur?
Flest allur úrgangur sem fellur til af heimilinu og er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án hjálpar súrefnis. Þar má nefna matarafganga s.s. kjöt, fisk, grænmeti, ávaxtahýði, egg, eggjaskurn og gamalt brauð. Garðaúrgang að sjálfsögðu, slátur- og fiskúrgang og feiti. Einnig pappír, eldhúspappír, notuð telauf, kaffikorg, ryksugu-og gæludýraúrgangur, o.m.fl.
Einföld og skilvirk leið fyrir lífrænan úrgang er að grafa hann niður. Þá eiga rætur, maðkar og aðrar lífverur greiða leið að vinna sitt verk eins og náttúran býður þeim og flýta þar með fyrir niðurbroti.
Byrjað er á að finna hentugan stað í garðinum. Staðsetningin ræðst hvar hentugast er án þess að mikið beri á því í garðinum eða eftir því hvað hverjum og einum hentar. Svo er að grafa hentuga stærð af holu:
Dæmi um gryfju sem er 80x100 sm að stærð og 80 sm að dýpt:
Grindin í hlemminn er 120x140 sm úr 50x100 mm efni sem klædd er 12 mm vatnslímdri spónaplötu. En ekkert mælir á móti að hafa minni gryfju þar sem þessi er nokkuð stór, en að sama skapi langlíf, endist í allt að tvö ár.
Opið fyrir miðju er um 35 sm á hvora hlið. Og yfir það er smíðað lok sem þarf að vera nokkuð efnismikið og þungt sem gerir það stöðugra, því flugur og fjórfætlingar eru fljótir að renna í kræsingarnar ef aðgangur er greiður.
Forðast skal að setja ólífræn efni s.s. gler, vaxborinn pappír, plast og allt sem er ólífrænt og skaðlegt, í hauginn.
Að fá góða moltu úr safnhaug tekur mislangan tíma, sem ræðst mikið af stærð og grófleika haugsins, en 6 – 18 mánuðir ætti að duga í flestum tilfellum.
Moltan er tilvalin í áburð fyrir gras og annan garðagróður.
Með safnhaug minnkar þyngd heimilissorps umtalsvert eða allt að 30%.
Heimild
Landvernd: Nikulás Fr. Magnússon.