Ráðleggingar við val á frystitækjum

Leiðbeiningastöð heimilanna hefur aðgang að gæðakönnunum sem neytendasamtök í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð standa fyrir. Á haustmánuðum aukast fyrirspurnir um frystiskápa og frystikistur, við höfum því tekið saman hvað gott er að hafa í huga þegar frystitæki eru valin og notuð.

Val og notkun á frystitækjum

Leiðbeiningastöð heimilanna hefur aðgang að gæðakönnunum sem neytendasamtök í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð standa fyrir. Á haustmánuðum aukast fyrirspurnir um frystiskápa og frystikistur, við höfum því tekið saman hvað gott er að hafa í huga þegar frystitæki eru valin og notuð. Það er oft mikill sparnaður falin í því að kaupa matvæli í miklu magni og frysta til að nota síðar. Það er fjárfesting að kaupa heimilistæki og því skiptir máli að skoða og bera saman verð og eiginleika. Þessir helstu eiginleikar eru útskýrðir hér að neðan.

Orkuflokkur og orkunotkun
Samræmdur orkunýtingarstuðull var innleiddur af evrópusambandinu fyrir ísskápa og frystitæki í júlí 2012. Eiga því öll kæli og frystitæki til heimilisins að hafa stuðulinn A+, A++ eða A+++ og er það tilgreint af framleiðanda. Orkunotkun er gefin upp í Kílówöttum á ári. (kWh/ári). Frystitæki nota um 250 – 330 kWh á ári.
Sparið orkuna með því að hafa frystirinn ávallt fullan, fyllið upp frystirinn með því að setja t.d. vatn í plastflöskur og fylla þannig upp í tómt pláss.

Nettórúmmál frystis
Nettórúmmál er gefið upp í lítrum. Ef ætlunin er að frysta mikið magn af matvælum þarftu mikið pláss. Athugið að framleiðendur fjarlægja allar hillur, skúffur og hurðarekka þegar lítrar eru mældir. Bresku neytendasamtökin mæla alla frysta með skúffum og hillum og fundu út að það getur verið allt að 29% munur á því plássi sem gefið er upp af framleiðanda og því plássi sem raunverulega er hægt að geyma matvæli í. Frystikistur eru yfirleitt með 2 – 4 körfur og eitt stórt hólf. Þar er hægt að geyma stærri stykki. En gætið þess að það eru meiri líkur á að matvælin gleymist í frystikistum t.d. í botninum. Einnig er erfiðara að finna það sem leitað er að. Frystiskápar eru með skúffum eða hillum með opnanlegu loki. Gott er að prófa að opna og loka skúffum áður en keypt er til að finna hversu gott er að opna og loka og draga út skúffur. Er t.d. hægt að opna hurðina almennilega til að ná að draga alveg út skúffurnar.

Frystigeta (kg á dag)
Frystigeta er gefin upp í kílóum á dag. Sem þýðir hversu fljótt kistan frýs kíló af mat á dag. Því fljótari sem hann er að frysta, því ferskari verður maturinn þegar hann er afþýddur. Verið raunsæ á hversu mikið magn er sett í skápinn í einu til að frysta. (Ekki mikið meira en fimm sinnum frystigetu hvern dag. ) Ef verið er að frysta mikið magn af kjöti t.d. skrokk. Dreifið þá pakkningunum um frystirinn. Þannig nærðu að frysta kjötið mun hraðar og gæðin verða betri. Sérstaklega skal athuga að dreifa hökkuðu kjöti og hafa það í minni pakkningum og flötum. Engin frystir frystir nógu hratt niður hakkað kjöt sem er í mjög stórum pakkningum. Það er líka mun fljótlegra að afþýða hakkað kjöt sem er í þunnum flötum pökkum.

Hljóðstyrkur er mældur í desíbelum (dB)

Hljóðstyrkur fyrir kæli- og frystitæki er yfirleitt á bilinu 32 – 47 dB. Allt fyrir neðan 40 dB er nokkuð hljóðlátt. Til útskýringar þá eru 40 dB hljóðstyrkur fyrir bókasöfn. Hljóðstyrkinn þarf að hafa í huga eftir því hvar frystitækið er staðsett. Frystitækin eru alltaf í sambandi og gefa því stanslaust frá sér einhverskonar hljóð, hærri þegar pressan fer i gang. Ekki er eins mikil þörf á hljóðlátu tæki ef það er inni í lokaðri geymslu, en ef frystirinn er t.d. í opnu eldhúsi þá er betra að huga vel að hljóðstyrknum.


Sjálfvirk afþýðing.
Sjálfvirk afþýðing eða afhríming kemur í veg fyrir að ísing myndist svo ekki þurfi ekki að affrysta reglulega. Það er mikill kostur. Þessi eiginleiki er mun algengari í frystiskápum en frystikistum. Í frystikistum er mikill kostur að hafa niðurfall fyrir afþýðingu. Regluleg afþýðing sparar ekki bara pláss heldur hefur lika áhrif á frystihæfileika tækisins og orkunotkun.

Frystigeta við straumrof
Helsta áhættan við að vera með mjög stóran frysti er að mikið magn matvæla getur skemmst ef það verður straumrof á frystinum þ.e. ef rafmagn fer af. Margir framleiðendur bjóða upp á gaumhljóð sem lætur vita þegar hitastig hækkar hratt í frystinum. Einnig er gefið upp á flestum tegundum hve mikil frystigetan er eftir straumrof. Það þýðir hversu lengi matvælin haldast frosin eftir að straumrof verður. Athugið að ef straumrof verður er mikilvægt að opna ekki kistuna eða skápinn til að halda frostinu í matvælunum sem lengst á meðan komist er fyrir vandamálið.

Hraðfrysting
Hraðfrystimöguleikinn er nær eingöngu í boði í dýrari frystitækjum. Þá stillingu er hægt að virkja þegar matvæli sem sett eru í frystinn eru nálægt herbergishitastigi. Þessi stilling tryggir að kæling er hröð og bæði næringargildi og bragð helst betur.

Gaumhljóð
Mörg tæki gefa frá sér viðvörunarhljóð/gaumhljóð, ef að hiti hækkar hratt. Eins gefa mörg frystitæki frá sér gaumhljóð ef gleymist að loka hurð almennilega eða ef einhver fyrirstaða er við lokun. Þetta er þó mun algengari eiginleiki í frystiskápum en kistum.

 

Til að fá upplýsingar úr gæðakönnunum sem Leiðbeiningastöðin hefur aðgang að er hægt að senda tölvupóst á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

  • Tuesday, 17 janúar 2017

Leiðbeiningastöð heimilanna

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 1135;
lh@leidbeiningastod.is