Morgunverðurinn gefur okkur orku fyrir daginn og er því mikilvægt að huga vel að þvi hvernig hann er samansettur.
Það þarf orku í að stunda vinnu, leik eða nám og því er það sem við neytum á morgnana undirstaðan fyrir daginn og raunar lykillinn að því að okkur líði vel og við afköstum því sem við þurfum.
Til að morgunverðurinn teljist vel samansettur þarf hann að innihalda prótein, kalk vítamín og steinefni. Taka þarf mið af því hvort um barn eða fullorðin er að ræða.
Dæmi:
Mjólk og mjólkurvörur s.s. ostar, jógúrt, skyr og egg innhalda mikið af eggjahvítuefnum (próteinum) auk þess kalk og mörg önnur nauðsynleg næringarefni.
Ávextir, safar (helst ferskir) og grænmeti innihalda m.a. C-vítamín og steinefni auk þess að sjá okkur fyrir kolvetni.
Gróft brauð, gott músli, hafragrautur og slátur innihalda m.a. járn, eggjahvítuefni, steinefni, B vítamín og góðar trefjar.
1 skeið af lýsi sér okkur fyrir dagsþörf á A og D vítamíni. Omega fitusýrur 3-6-9 má taka inn samhliða lýsi.
Veljum viðbit ofan á brauð með góðum fitum sem eru góðar fyrir æðakerfið auk þess að innhalda E vítamín.
Morgunkorn eru oft með viðbættum bætiefnum en oft með óþarfalega miklum sykri. Hafragrautur er bæði hollari og ódýrari og hægt að bera hann fram með kanil, þurrkuðum ávöxtum og eða AB mjólk.
Það er því vert að setjast niður og fara yfir hvernig við getum bætt morgunverðin á heimilinu, þannig að við fáum helstu næringarefni sem líkaminn þarfnast úr fæðunni. Það bætir einnig andlega heilsu í dagsins önn, við afköstum meiru og okkur líður betur.
Sama er með nesti í skóla eða vinnu. Það þarf að vera vel samansett t.d. brauð, ávextir, grænmeti s.s. agúrka, tómatur eða gulrót. Auk þess er skyr eða jógúrtdós góður kostur. Veljum frekar sykurlausar eða sykurminni mjólkurafurðir.
Forðumst skyndibita og sælgæti til að ná skammvinnri og óhollri orku, það leiðir af sér vanlíðan, auk þess sem aukakílói hlaðast auðveldlega utan á okkur.
Munum að 5-6 stk á dag (4-500 gr) ávextir og grænmeti eru nauðsynlegar til að viðhalda jöfnum blóðsykri.
Til viðmiðunar er þyngd á einu epli ca 250 gr.