Lagt á borð

borðbúnÞað skiptir máli hvernig lagt er á borð þegar bjóða skal gestum, já og bara dags daglega.

Fallega dúkað borð er augnayndi og gaman að leggja sig fram um að skapa góða upplifun fyrir gesti okkar. Það sem við bjóðum upp á og umgjörð veislunnar fer eftir tilefninu og á hvaða tíma dags, hversu íburðarmikil hún á að vera. Gott er að leggja á borð fyrir matarboð með góðum fyrirvara, jafnvel deginum áður.
Fyrst þarf að ákveða hvort boðið er upp á kaffi- eða matarborð, hvort borðhaldið eigi að vera standandi eða sitjandi o.s.frv.

Þegar mikið stendur til notum við að sjálfsögðu besta borðbúnaðinn sem við eigum.
Dúkar, munnþurrkur (servíettur) fara eftir því hve mikið er haft við. Fallegir dúkar t.d. úr bómullardamaski eða hör gera mikið fyrir veisluborð og þá er fallegast að nota munnþurrkur úr sama efni með. Bréfdúkar eru góður kostur og afskaklega hentugir, sama er með bréfservíettur. Diskamottur fást í miklu úrvali og setja skemmtlegan svip á matarborð. Það kemur vel út að hafa dúka, diskamottur, servíettur, borðskraut og kerti samstæð þannig að heildarsvipur gleðji augað. Varist að hafa pappadiska með hlaðborði, nema hafðir séu bakkar fyrir hvern og einn gest og nóg af lausum litlum borðum og næg sæti fyrir alla. Þegar boðið er upp á standandi smáréttaveislu, er þægilegast að gestir taki sé veitingar á servíettu.
Ef um sitjandi borðhald er að ræða gætið þess að borðskreytingar séu ekki of háar.
Ljúf tónlist á vel við undir borðum.

Diskur fyrir aðalrétt er hafður sem miðpunktur og lagður ca 1 cm frá borðbrún.
Ofan á hann er lögð milliservíetta ef vill og forrétta- eða súpudiskur þar ofan á.
Til vinstri er lagður hliðardiskur fyrir brauð eða salat og þar fyrir ofan diskur eða skál fyrir bein og annað, ef vill.
Ef notaðir eru millidiskar er diskur fyrir aðalrétt ekki lagður á borðið fyrr en búið er að snæða forrétt og fjarlægja millidisk.Hnífapör, gafflar vinstra megin og hnífar hægra megin. Tegundir og fjöldi fer eftir því hve margir réttir eru í boði. Meginreglan er sú að byrjað er að nota þau sem liggja yst og svo í röð í átt að diski: Hnífur fyrir forrétt hægra megin fjær diski.
Hnífur fyrir aðalrétt hægra megin næst diski.
Hnífur fyrir brauð er gjarnan lagður á hliðardisk til vinstri.
Hnífsegg skal alltaf snúa að diski.
Súpuskeið er höfð lengst til hægri ef boðið er upp á súpu sem forrétt.
Gaffall fyrir forrétt fjær diski, vinstra megin.
Gaffall fyrir aðalrétt næst diski vinstra megin.
Skeið/gaffall fyrir eftirrétt eru lögð ofan við disk.
Glös frá hægri til vinstri: glas fyrir vatn, glas fyrir forrétt, glas fyrir aðalrétt, glas fyrir eftirrétt.
Stundum er vatnsglas haft ofarlega til vinstri.
Nafnspjald ef við á, er oftast fyrir miðju aftan við glös eða aðeins til hægri.
Söngtextar og matseðill eru oft lagðir á hliðardisk á vinstri hönd. 
Ef kaffi er strax í lok borðhalds er bollapar lagt til vinstri við glös eða ofan við disk.
Föt, skálar og áhöld fyrir réttina fara eftir tegundum og magni þess sem boðið er upp á.
Í formlegu borðhaldi þar sem raðað er til borðs, situr daman hægra megin við sinn borðherra.

Ef boðið er upp á kaldan forrétt má leggja hann á borð áður en gestir ganga til sætis og þá er í lagi að skenkja vínið fyrirfram.
Annars er víni skenkt áður en matur er komin á diska.
Við hlaðborð er áhöldum gjarnan raðað þannig að hnífapör ásamt munnþurrkum að auðvelt sé að taka þau þegar það er búið að setja mat á disk, t.d. á hliðarborð.
Á kökuhlaðborðum er kökudiskum staflað við borðsenda og kaffibollar og áhöld höfð sér.
Munum að oft er hið einfalda best og varast skal að bjóða upp á of margar tegundir í einu.

Að njóta saman

Það er einfalt að gera borðhald að notalegri samverustund, blóm í vasa, kertaljós og fallega borin fram matur gera heilmikið fyrir máltíðina.
Þar sem börn eru, á að leyfa þeim að taka þátt í að búa til matinn. Það er staðreynd að þau hafa oft betri lyst á því sem þau koma nálægt að útbúa.
Siðir og venjur eru til grundvallar og skapa ramma en eru ekki ófrávíkjanlegar og fara auk þess eftir efnum og aðstæðum.
Tilefnin fyrir fjölskyldur og vinahópa að hittast og borða góðan mat eru mörg og fjölbreytt og stuðla að samheldni og viðhalda vinskap. Og þarf ekki endilega að vera sérstakt tilefni, heldur einungis ánægjan að koma saman. Sniðugt er að deila kostnaði t.d. með að halda samskotaveislu.
Matarboð á að vera upplifun sem skilur eftir sig góðar minningar.
Hver á ekki í fórum sínum myndir sem teknar eru á góðri stundu þegar fólk situr saman til borðs?

Húsfreyjan 1 tbl. 2010

  • Friday, 26 október 2012