Grænmeti

Við fáum stóran hluta þeirra fjör- og steinefna, sem okkur eru nauðsynleg úr nýju og fersku grænmeti. Næringagildi þess er mest þegar það er fullþroskað, þá er það líka bragðmest og safaríkast.

Þeir sem hafa sinn eigin matjurtagarð eru vel settir að geta tekið upp ferskt grænmeti jöfnum höndum. En ekki eru allir svo heppnir og verða að velja sér grænmeti í verslun. Það er mikilvægt að sneiða hjá visnu og illa útlítandi grænmeti, þá er næringagildi þess hverfandi, auk þess að rýrna mun meira við matreiðslu. Upplagt er að nota sér tilboð sem stöku sinnum bjóðast í stórmörkuðum og birgja sig upp. Með réttri geymslu má koma í veg að grænmeti láti á sjá og tapi næringagildi sínu. Gott er að hafa í huga: 

Grænmeti þarf kaldan og dimman stað til að halda ferskleika sínum eftir að það er tekið upp.
Það minnkar geymsluþol að þvo grænmeti fyrir geymslu, þarf samt að bursta mold og önnur óhreinindi af.
Best er að pakka því vel inn í plastfilmu eða annað vel lokað ílát og geyma í grænmetisskúffu í kæliskápnum.
Rótargrænmeti þarf að geyma á köldum en frostlausum stað og helst í rökum sandi, sé þess kostur.
Aldrei skal geyma ávexti og grænmeti saman, þá skerðist geymsluþol þess umtalsvert.
Súrefni og sól skaða afskorið grænmeti og því skal forðast að láta það liggja við þannig aðstæður.
Alltaf skal hreinsa og sjóða grænmeti rétt áður en þess er neytt.
Grænmeti skal aldrei hreinsa nálægt kjöti eða fiski, því þá geta borist jarðbakteríur á milli sem mynda eiturbakteríur og þannig sýkt matvælin.
Mælt er með að gufusjóða grænmeti og þá aðeins þann tíma sem tekur að verða meyrt.
Sé grænmeti soðið í vatni er það sett í sjóðandi vatn með örlitlu salti.
Gott er að nýta soðið í sósur og súpur.
Soðið grænmeti á að bera fram strax að lokinni suðu. 

Frysting
Hægt er að frysta flestar tegundir grænmetis. Það þarf að vera ferskt. Gott að notfæra sér þegar tilboð eru á dýrari tegundum grænmetis og kaupa ríflega inn og frysta. Allt grænmeti sem á að frysta þarf að forsjóða, nema papriku og spergilkál. Forsuðutími t.d. á blómkáli 4-5 mín. blaðlauki 2 mín. Gulrótum 5-6 mín. (fer eftir stærð). Eftir forsuðu þarf að kæla grænmetið hratt, vatnið látið renna vel af, pakkað og merkt og sett strax í fryst. Vel er hægt að frysta unnið rauðkál.
Geymsluþol grænmetis í frysti er að jafnaði 10-12 mánuðir.

Ath. blaðsalöt og tómata er ekki ráðlagt að frysta.   

  • Sunday, 28 október 2012