Brúðkaupsveisla getur verið með ýmsu sniði og fer að sjálfsögðu eftir óskum brúðhjónanna hvernig henni er háttað.
Oft tekur nokkra mánuði að undirbúa slíka veislu enda mikill viðburður í lífi allra. Mismunandi er á hvað tíma dags brúðkaup fer fram. Ef veisla er seinni hluta dags eða undir kvöldmatarleyti þarf að taka sérstaklega ef ekki er boðið upp á kvöldverð, heldur léttar veitingar. Sé þetta ekki tekið fram gætu sumir komið án þess að hafa borðað kvöldmat. Það gæti skapað erfiðleika og jafnvel leiðindi en þegar boðið er upp á léttar veitingar er það gert til að gleðja en ekki seðja.
Þegar um léttar veitingar er að ræða eru oftar en ekki notaðar servíettur í stað diska. Ekki er gert ráð fyrir að gestir þurfi að taka marga bita í einu í servíettuna né heldur að þeir þurfi að standa við borðið og borða sig sadda. Skemmtilegra er að fólk geti komið að borðinu aftur og aftur og fengið sér bita á milli þess sem það gengur um á meðal annarra veislugesta og spjallar við þá.
Ef ætlunin er að bjóða upp á tapas eða pinnamat er hæfilegt að miða við 8-10 tapassnittur á mann eða 12-15 stykki af pinnamat. Hvort sem hádegisverður eða kvöldverður verður fyrir valinu skal miðað við að veitingar fyrir hvern gest séu sem svarar 500 g og skiptist það magn auðvitað niður í forrétt, aðalrétt og eftirrétt og allt meðlæti.
Þegar gestir koma til veislunnar er skemmtilegt að byrja á því að bjóða upp á kampavín og ferska ávexti, til dæmis jarðarber. Miðað er við að hver gestur fái tvö glös af kampavíni sem fordrykk en dragist úr hömlu að brúðhjónin mæti má búast við að einhverjir drekki þrjú glös. Í einni kampavínsflösku eru að öllu jöfnu sex vínglös.Sé vín borið fram með mat er gert ráð fyrir að hver gestur fái eitt hvítvínsglas með forrétti og tvö rauðvínsglös með aðalrétti, sé um kjöt að ræða. Annars má halda sig við hvítvínið alla máltíðina. Þá er ekki síður skemmtilegt að vera með kampavín í staðinn fyrir hvítvín og halda sig gjarnan við sömu tegund og notuð var þegar tekið var á móti gestunum. Hafi verið boðið upp á sætt kampavín í upphafi er þó rétt að breyta yfir í þurrari tegund með matnum.
Hvað þarf mikið vín í veislur?
Í matarveislu má miða má við að tveir deili með sér einni 750 ml flösku af léttu víni. Með pinnamat eða við móttöku sem tekur 2-3 tíma má reikna með 1 lítra af bjór á mann og/eða að tveir deili með sér flösku af léttu víni.Ef notað er sterkt áfengi má reikna með 4 sjússum á mann. Sjússinn er 3 cl, þannig að ein 700 ml flaska af sterku áfengi dugar fyrir 6 manns. Ef skála á í kampavíni er 1 til 1 1/2 glas nóg en oftast er miðað við 2 glös á mann. Ef drekka á kampavín í u.þ.b. tvo tíma er miðað við 3 glös á mann sem þýðir að tveir gestir eru um hverja flösku.
Gleðja en ekki seðja
Eins og allir vita á þetta jú bara að gleðja en ekki seðja. Mjög skemmtilegt er að bjóða upp á smáréttaborð sem samanstendur bæði af heitum og köldum réttum. Þá er hægt að vera með svokallað sitjandi/standandi boð og getur maður fengið þar til gerðar klemmur sem smellt er á diskana og er gert ráð fyrir að glasið sitji á klemmunni. Þessar klemmur fást leigðar hjá veisluþjónustum en glösin verða að vera á fæti. Hvað magnáætlun varðar, ef um kvöldmat er að ræða, er miðað við 500 g á mann af hráefni í það heila. Þegar búið er að taka þessar helstu ákvarðanir er farið að undirbúa önnur atriði, eins og t.d. boðskort.
Munið að taka nákvæmlega fram stað og stund eftir tilefni veislunnar, til þess að boðsgestir geti vitað u.þ.b. hversu lengi veislan muni standa.