Það eru margvísleg rök fyrir því að hvetja alla, unga sem aldna til að neyta daglega ávaxta og grænmetis.
Hollusta þessa fæðuflokks er löngu hafin yfir nokkurn vafa og samkvæmt ráðleggingum Manneldisráðs, er mælt með að borða 5 stk ávexti + grænmeti, eða sem svarar 400-500 gr á dag.
Þetta magn í bland við aðrar hollar fæðutegundir er góð leið til að halda kjörþyngd.
Reyndar má heldur auka við þetta magn ef eitthvað er, því samkvæmt niðurstöðum sem Danska Matvælarannsóknarstofnunin (Fødevareinstitut DTU), birti á síðasta ári er mælt með að neyslu 6 stk ávaxta og grænmetis, eða um 500-600 g á dag.
Hér er átt við magn fyrir fullorðin einstakling. Mælt er með að börn á aldrinum 4-11 ára neyti rúmlega helmings á við fullorðna.
Samkvæmt rannsóknum er talið að neysla þessa magns af ávöxtum og grænmeti séu fyrirbyggjandi hvað varðar hjarta- og æðasjúkdóma, offitu og sykursýki.
Auk þessa er talið að neysla þeirra minnki líkurnar á að fá ákveðnar tegundir krabbameins, gláku, heilabilunarsjúkdóma, gallsteina og astma.
Neysla ávaxta jafnar blóðsykur og slær á sætindaþörf.
Til þess að auka neyslu fjölskyldunnar á ávöxtum og grænmeti er best að skipuleggja máltíðir þannig að þeir séu sjálfsagður hluti máltíða og sýnilegir, þannig að auðvelt sé að grípa til þeirra.
Þessar fæðutegundir gera líka mataræði okkar mun fjölbreyttara.
Færst hefur í vöxt að fyrirtæki láti ávexti liggja frammi fyrir starfsfólk sitt, sem er mjög til fyrirmyndar.
Foreldrar og forráðamenn barna eiga auðvitað að vera þeim góð fyrirmynd, með því að neyta sjálfir reglulega ávaxta og grænmetis.
Grænmeti er sjálfkjörið meðlæti með fiski og kjöti í máltíðum, auk þess sem grænmetisréttir úr góðu hráefni eru hollir.
Til að tryggja að ávextir séu daglega á borðum heimilanna er gott að hafa eftirfarandi í huga:
Að ávextir tilheyri morgunmatnum t.d. með morgunkorni út í súrmjólk eða AB-mjólk.
Að ávextir eru einkar handhægir í nestispakkann, bæði í skóla og vinnu.
Að ávextir eru upplagðir biti milli mála.
Að ávextir eru frábærir sem kvöldnasl.
Að ávexti er hægt að bera fram á fjölbreyttan hátt. Setja í blandara og útbúa næringaríka ávaxtadrykki, kreista í safapressu eða setja í bitum út í drykki.
Að ávextir eru einkar góður og fallegur veislukostur, t.d. með ostum.
Allar tegundir ávaxta mynda mismikið magn af lofttegund sem kallast etýlen.
Etýlen flýtir fyrir þroska uppskerunnar og er jafnvel stundum notað til að flýta þroska t.d. banana.
Það styttir geymslutíma grænmetis að geyma það með tegundum sem gefa frá sér mikið etýlen, þar má nefna epli og perur. Því skal gæta þess að geyma þessar tegundir ekki saman.