Við minnumst Rana Plaza vikuna 19.- 25. apríl

Vikuna 19. - 25. apríl 2021 minnumst við þess að þann 24. apríl 2013 hrundi Rana Plaza byggingin í Bangladesh.

8731789941 193d2b53aa w

Rana Plaza hýsti fjöldan allan af fataverksmiðjum. Þar störfuðu um 5.000 manns. Fólkið í Rana Plaza var að framleiða fatnað fyrir mörg stærstu tískumerki heims. Yfir 1100 manns létust í hruninu og aðrir 2.500 særðust, sem gerir það að fjórðu stærstu hörmungum iðnaðarins í sögunni. Fórnarlömbin voru aðallega ungar konur.

Harmleikurinn í Rana Plaza varð til þess að heimurinn vaknaði til meðvitundar um aðbúnað verkafólks í fataiðnaðinum.
Nokkrar jákvæðar breytingar hafa orðið í greininni undanfarin ár. Mannréttindabrot og umhverfisspjöll halda samt áfram. Þó að mikill fjöldi almennings hafi orðið meðvitaðri um þessi vandamál, eru margir enn í myrkrinu, ómeðvitaðir um hversu mikil umhverfis- og samfélagsleg áhrif fötin þeirra valda.

Við tileinkum þessa viku fólkinu sem býr til fötin okkar.

Dauði er sem betur fer ekki daglegt brauð í fataverksmiðjum, en léleg laun og slæm vinnuskilyrði eru því miður enn við lýði.

Fataiðnaðurinn er atvinnugrein sem þarf hvað mest af vinnuafli þar sem hver einasta flík er saumuð og meðhöndluð í höndunum áður en hún kemur í búðina. Einn af hverjum sex í heiminum vinnur við fataframleiðslu og 85% af vinnuaflinu eru konur. Þær vinna nánast allar sem undirmenn, því karlarnir fá yfirmannsstöðurnar. Þetta gerir konurnar sérstaklega viðkvæmar fyrir kynferðislegu áreiti.

Við kaupum um 60% meira af fötum í dag en við gerðum árið 2000. Til að mæta eftirspurn hraðtískunnar hafa framleiðendur leitað til landa þar sem kostnaðurinn við framleiðslu er hvað lægstur. Til landa einsog Bangladesh, Indlands, Kína, Víetnam og Filipseyja. Það eru konurnar sem vinna þessi störf. Réttindabrot eru algeng í þessum verksmiðjum. Menningin gerir konunum ekki kleift að standa á réttindum sínum. Í fataverksmiðjum í Bangladesh er sagt frá konum með þvagblöðrusýkingar vegna þess að þær fá ekki að fara frá vinnustöðinni til að fara á klósett. Konum er refsað þegar þær tilkynna sig veikar þegar þær eru á blæðingum því hreinlætisaðstaðan býður ekki upp á að mæta í vinnu þá daga. Það er öskrað á þær og þær þurfa að þola allskonar glósur, háð og annað kynferðislegt áreiti og ofbeldi frá yfirmönnum sínum.

Þær þurfa að þola ómanneskjulegar vinnuaðstæður, langan vinnudag og fá laun sem duga engan vegin til framfærslu. Í Bangladesh fá þessar konur einungis um 18% af því sem þær þurfa til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.

Lífslíkur bænda sem framleiða venjulega bómull í Indlandi er sögð vera um 30 ár vegna allra þeirra kemísku efna sem þeir komast í snertingu við á bómullarökrunum. Þessi efni fara út í vatnið og menga nærliggjandi akra sem framleiða mat. Þessi efni menga því fyrir allri fjölskyldu bómullarbóndans, konum og börnum.

Áhersla á að lágmarka kostnað hefur í för með sér að oft er sparað í mengunarvörum og öryggismálum.

Í skýrslu Oxfam frá árinu 2017 kemur fram að með því að greiða fólki í aðfangakeðjunni laun sem nægja til framfærslu þyrfti eingöngu að hækka útsöluverð á flíkinni um 1%. 

En það eru ekki einungis við sem kaupum fötin sem þurfum að breyta því hvernig við högum kaupum okkar á fatnaði og textíl. Þeir sem hanna og framleiða föt verða að hugsa ferlið á sjálfbærari hátt. Hverjar eru vinnuaðstæður þeirra sem vinna við framleiðsluna?

Hvernig er hægt að búa til flík þannig að hún endist vel og líftími hennar sé sem lengstur? Hvaða trefjar eru í efninu? Eru það endurunnar trefjar eða náttúrulegar? Með því að hugsa um endurvinnslu strax á hönnunarstiginu er tryggt að hægt sé að endurvinna efnið þegar flíkin er ekki nothæf lengur.

Með því að þrýsta á fataframleiðendur hefur sem betur fer ýmislegt áunnist en leiðin er enn löng.

Hefur þú hugsað um hvaðan flíkurnar eru, sem eru í þínum fataskáp?

  • Förum vel með
  • Notum lengur
  • Gerum við
  • Breytum og bætum
  • Endurvinnum

Þessa viku munum við deila ýmsu til að vekja athygli á þeim samfélagslegu áhrifum sem fötin okkar valda. Fylgdu okkur á Facebook