Kvenfélagasamband Íslands fagnaði 60 ára starfi Leiðbeiningastöðvar heimilanna í móttöku sem var haldin í samkomusal Hallveigarstaða að loknum formannaráðsfundi Laugardaginn 21. október síðastliðinn. Meðal gesta voru fyrrum starfsmenn stöðvarinnar ásamt formannaráði KÍ, heiðursfélögum og fyrrum forsetum KÍ. Sett var upp sýning á munum sem tengjast starfi Leiðbeiningastöðvarinnar í þessi 60 ár og eldri munir líka sem tengjast ferðum heimilisráðunauta Kvenfélagasambandsins sem fóru um landið með námskeið fyrir húsmæður sem var fyrir tíma Leiðbeiningastöðvarinnar.
Veislustjóri í móttökunni var Eva Björk Harðardóttir. Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ og Leiðbeiningastöðvarinnar flutti hátíðarræðu og fór þar yfir sögu Leiðbeiningastöðvarinnar og skálað var fyrir þeim konum sem höfðu lagt til stofnun stöðvarinnar fyrir 60 árum. Í boði voru góðar veitingar og tónlistaratriði. Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir sópran flutti nokkur lög við undirspil Arnhildar Valgarðsdóttur, píanóleikara.
Frá vinstri: Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ og Leiðbeiningastöðvar heimilanna, Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ, Guðrún Þórðardóttir fyrrum forseti kÍ, Una María Óskarsdóttir fyrrum forseti KÍ, Sigurlaug Viborg fyrrum forseti KÍ, Helga Guðmundsdóttir fyrrum forseti KÍ, Eygló Guðjónsdóttir fyrrum forstöðumaður Leiðbeiningastöðvar heimilanna og Kristín Guðmundsdóttir fyrrum starfsmaður KÍ og Leiðbeiningastöðvar heimilanna.