Matarsóun á íslenskum heimilum undir Evrópumeðaltali

Matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum.

Niðurstöður mælinga

Þetta sýna niðurstöður mælinga Umhverfisstofnunar sem birtar eru á alþjóðlegurm degi Sameinuðu þjóðanna gegn matarsóun 29. september. Stofnunin hefur í fyrsta sinn mælt matarsóun í allri virðiskeðju matvæla eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins.

 

Hvar er mat sóað?

Mælingarnar á matarsóun náðu yfir alla hlekki virðiskeðjunnar, þ.e.a.s. frumframleiðslu, vinnslu, framleiðslu, dreifingu og smásölu matvæla, veitingahús, matarþjónustu og heimili. Niðurstöðurnar sýna að matarsóun er fyrst og fremst í frumframleiðslu annars vegar og hins vegar á heimilum.

Matarsóun í frumframleiðslu skýrist fyrst og fremst af umfangsmiklum sjávarútvegi, en þar hefur framleiðslumagnið mest að segja á meðan nýtingin virðist vera góð. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að matarsóun á heimilum hafi ekki aukist frá mælingum árin 2016 og 2019 heldur hafi nokkurn veginn staðið í stað. Erfitt er hins vegar að alhæfa um breytingarnar milli ára þar sem um breytta aðferðafræði er að ræða.

matarsóun mælingar 2023Einna mikilvægast er að minnka matarsóun á heimilum í landinu. Þar tapast mestu verðmætin.  Auk þess verða mestu umhverfisáhrifin þegar mat er sóað á heimilum. Verð á matvælum hefur hækkað nokkuð hratt síðastliðið ár og því til mikils að vinna að draga úr matarsóun með það að markmiði að bæta stöðu heimilanna. Að því sögðu er verkefnið þó ekki einkamál heimilanna og fyrirtæki og framleiðendur þurfa að leggja sitt af mörkum með því að hanna og markaðssetja vörur sínar með matarsóun á heimilum í huga.

Kvenfélagasamband Íslands og Leiðbeiningastöð heimilanna hafa unnið að verkefnum tengdum matarsóun síðastliðin ár og eru þetta því´góðar fréttir í baráttunni.  Á síðunni okkar eru fjökmargar greinar og góð ráð til að minnka matarsóun. Meðal annars hér.

Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar