Leiðbeiningastöð heimilanna hefur verið rekin af Kvenfélagasambandi Íslands (KÍ) síðan 1963. Starfsemi Leiðbeiningastöðvarinnar er nátengd starfi KÍ enda staðsett á sömu skrifstofu að Hallveigarstöðum í Reykjavík.
Tilkoma Leiðbeiningastöðvarinnar átti sér ákveðinn aðdraganda í farandkennslu sem KÍ styrkti um árabil, m.a. í garðyrkju, matreiðslu og saumaskap. Frá 1944 allt fram til 1961 voru nokkrir hússtjórnar-og handavinnukennarar á vegum KÍ sem ferðuðust um landið og héldu námskeið, sýnikennslu og erindi. Þetta var mjög vinsælt, einkum á landsbyggðinni.
Árið 1963 var ákveðið að breyta fræðslustarfi sambandsins í þá veru að skrifstofa KÍ sæi um fræðslu- og upplýsingastarfsemi fyrir húsmæður. Aflað skyldi sérfræðibóka, tímarita og blaða um nýjustu erlendar rannsóknir í þágu heimila og veita upplýsingar á skrifstofunni og í gegnum síma. Þegar þetta var ákveðið var lögð áhersla á að komið yrði á fót „Rannsóknastofnun heimilanna“ í samvinnu við „Rannsóknastofnun ríkisins í þágu atvinnuveganna“ sem þá var starfandi. Rannsóknastofnunin myndi síðan tengja starf héraðsráðunauta sem koma átti á fót í samvinnu við Búnaðarfélagið. Árið 1963 var unnið að því að leggja þetta mál fyrir Alþingi og ríkti bjartsýni innan KÍ um að takast mætti að koma því í gegn. Ekkert varð hins vegar úr því og hefur ekki orðið enn, en Leiðbeiningastöðin tók til starfa þetta ár í október í umsjón Sigríðar Kristjánsdóttur húsmæðrakennara sem starfaði við stöðina fyrstu tvö árin. Auk starfseminnar á skrifstofunni voru kvikmyndir og litskuggamyndir með fræðsluefni sendar út til félaganna og um 1970 hófst útgáfa á fræðsluritum, ýmist frumsömdum eða þýddum. Fyrsta fræðsluritið fjallaði t.d. um frystingu matvæla og út hafa komið leiðbeiningar um sjálfvirkar þvottavélar, uppþvottavélar o.fl. Umsjón með flestum ritunum hafði Sigríður Haraldsdóttir húsmæðrakennari sem vann á Leiðbeiningastöðinni um árabil, en hún var heimilishagfræðingur að mennt, hún stundaði framhaldsnám fyrir húsmæðrakennara í hagfræði við háskólann í Árósum 1963—64. Einnig hafði hún stundað framhaldsnám í áhaldafræði við sama skóla veturinn 1946
Á formannafundi 1962 var skipuð nefnd til að semja tillögur um fræðslustarfsemi landssambandsins. Nefnd þessi lagði fram tillögur að fræðslustarfsemi fyrir heimilin á landsþingi 1963. Þar var lagt til að skrifstofa sambandsins skyldi hafa á hendi fræðslu og upplýsingastarfsemi fyrir húsmæður, auk almennra skrifstofustarfa. Ráða skyldi sérstakan starfsmann og einnig skyldi leitað til sérfræðinga eftir þörfum og eftir því sem efni leyfðu. Sérfræðibóka, tímarita og blaða skyldi aflað, ásamt því að leitað yrði til erlendra rannsóknarstofnana til stuðnings fræðslustarfsins. Fræðslu skyldi koma á framfæri í tímaritinu Húsfreyjunni og með útgáfu fræðslurita. Nefndin hvatti einnig til stofnunar rannsóknarstöðvar á málefnum heimilanna og benti á að slík stofnun gæti risið í sambandi við aðrar rannsóknarstofnanir ríkisins. Skrifstofa Kvenfélagssambands Íslands skyldi vera miðstöð fræðsluþjónustunnar. Allt þetta var samþykkt á landsþingi Kvenfélagasambands Íslands árið 1963 og þar með var lagður grundvöllur að starfi leiðbeiningastöðvar heimilanna, sem síðan hefir starfað óslitið. Leiðbeinendur í gegnum tíðina voru oft menntaðir hússtjórnarkennarar. Í fyrstu var stöðin aðeins opin tvo tíma á dag. Opnunartíminna hefur verið breytilegur í gegnum árin og var á tímabili opin hvern dag þegar mikið barst inn af fyrirspurnum og hafa forstöðumenn stöðvarinnar verið allnokkrir. Í dag sinnir starfsmaður skrifstofu KÍ einnig Leiðbeiningastöðinni og nýtir allt það gífurlega efni sem orðið hefur til, eða finnst í bókasafni stöðvarinnar ásamt því að leita nýrra áreiðanlegra upplýsinga.
Árið 2012 var heimasíða Leiðbeiningastöðvar heimilanna opnuð og fær í dag mörg þúsundir heimsóknir í hverjum mánuði.
Á síðunni er hafsjór af upplýsingum um matreiðslu, bakstur, geymsluþol matvæla, mataræði, þrif og þvotta, blettahreinsun og fleira. Auk þess er hægt að senda inn fyrirspurnir með tölvupósti og í dag er símatími stöðvarinnar opin 2x í viku og er reynt að sinna því eins og kostur er. Nóg er að gera á Leiðbeiningastöð heimilanna allt árið, en fyrirspurnir eru nokkuð árstíðabundnar. Algengustu fyrirspurnir í kringum stórhátíðir eru t.d. hvernig best sé að skipuleggja veislu og matarborð, hvaða veitingar henti best og eins hversu mikið þarf að áætla af veitingum. Ekki má gleyma smákökubakstrinum, matreiðsluaðferðinni á jólasteikinni og fleira. Á haustin er mikið spurt um geymsluþol grænmetis, frystingu og súrsun, sultu- og sláturgerð. Fyrirspurnir, eins og hvernig sé auðveldast að ná blettum úr fötum, teppum og húsgögnum, ráðleggingar vegna kaupa á heimilistækjum, geymsluþol og meðferð matvæla. Þjónustan er algjörlega gjaldfrjáls og hefur alltaf verið frá upphafi.
2023/JJ