Algeng vandamál í þvottavélum og ráðleggingar við lausn vandans

Sum þvottavélarvandamál er hægt að leysa mjög auðveldlega með því að nota einföld verkfæri eða jafnvel bara með því að herða slönguna, á meðan önnur vandamál gætu þurft vinnu fagmanns. Lengjum líftíma heimilistækjanna okkar, það er ekki alltaf ástæða til að kaupa nýtt.

thvottavelar vidgerd

Leiðbeiningastöð heimilanna hefur í fjölda ára aðstoðað marga gjaldfrjálst við val á heimilistækjum og fáum við margar spurningar varðandi hin ýmsu heimilistæki. Algengustu spurningarnar varða þvottavélarnar okkar og þvottinn. Það er ýmislegt sem getur komið upp; hvort sem þvottavélin er ekki að þrífa fötin eins vel og áður, eða að hún lekur eftir hvern þvott, ekki hunsa merki um að eitthvað sé að vélinni þinni. Sum þvottavélarvandamál er hægt að leysa mjög auðveldlega með því að nota einföld verkfæri eða jafnvel bara með því að herða slönguna, á meðan önnur vandamál gætu þurft vinnu fagmanns. Lengjum líftíma heimilistækjanna okkar, það er ekki alltaf ástæða til að kaupa nýtt.

Í almennri stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir til ársins 2027 eru raftæki sett í brennidepil á árunum 2022 – 2023 í verkefninu Saman gegn sóun.

Ef þú ert hins vegar að nota meiri tíma í viðgerðir en að þvo í þvottavélinni þinni gæti verið kominn tími til að kaupa nýja. Mikilvægt er að skila gömlu biluðu vélinni í endurvinnslu. Öll stærri raftæki (svokölluð hvítvara) nema kælitæki fara í flokkinn Stór raftæki og skal skilað á móttökustöðvar Sorpu. Tækin eru tætt í sundur hjá viðurkenndum vinnsluaðilum. Efni hættuleg umhverfinu eru flokkuð frá og meðhöndluð með viðeigandi hætti. Endurvinnsluefni, t.d. málmar, eru flokkuð frá og komið í réttan farveg.

Hér að neðan er að finna leiðbeiningar og ráð um hvernig má laga nokkrar af algengari vandamálum í þvottavélum og hvenær þarf að hafa samband við fagmann.

Þvottavélin þrífur ekki nægilega vel

Ein algengasta ástæðan er stífla. Ef þvottaefnið kemst ekki að fötunum þín, þá getur þvottavélin ekki þvegið almennilega. Ef það er stífla, geta þvottaefni, sýklar og jafnvel mygla að lokum safnast upp og flust yfir á þvottinn þinn. Þetta gerist líka ef sían er stífluð eða frárennslisrörið er stíflað.

Prófaðu að þrífa bæði þvottaefnisskúffuna og síuna áður en þú byrjar á næsta þvottaferli. Ef það er ekki að virka gæti þurft að athuga frárennslið úr vélinni.

Aðrar ástæður gætu verið:

  • Ofhleðsla – Ef troðið er of miklu í vélina hreyfist þvotturinn ekki nægilega um vélina, óhreinindi festast þá á milli þvottsins og skilur of lítið pláss eftir fyrir þvottaefnið til að dreifast.
  • Að nota rangt þvottaefni eða velja rangt þvottakerfi – ákveðin þvottaefni virka best við ákveðið hitastig, svo athugaðu þetta áður en þú kaupir. Á hinn bóginn eru ákveðin þvottakerfi vélarinnar hönnuð fyrir sérstakar flíkur - silki til dæmis. Ef þú velur rangt þvottakerfi gæti það leitt til þess að þvottavélin er ekki að vinna nægilega á því sem þú ætlar að þvo.

Af hverju klárar þvottavélin ekki?

Ef vélin þín er tiltölulega ný ætti hún að birta villukóða þegar hún nær ekki að klára þvottalotu. Ef svo er skaltu skoða handbók vélarinnar til að hjálpa þér að finna bestu leiðina til að takast á við vandamálið.

Þegar villukóði birtist ekki geta aðrar orsakir verið:

  • Gölluð upphitun – Ef vélin slekkur á sér á fyrsta hálftímanum gæti verið að vatnið sé ekki að hitna rétt, sem verður til þess að vélin stöðvast í miðri lotu. Á hinn bóginn, ef vélin stöðvast eftir 30 mínútur gæti vatnið verið að ofhitna, sem aftur neyðir hana til að stöðvast. Líklegasta orsökin fyrir þessu er bilaður hitastillir.
  • Frárennsli – Ef vélin þín getur ekki tæmt vatnið á milli hverrar lotu gæti það þvingað vélina til að stöðvast of snemma. Athugaðu hvort séu stíflur í dælusíu og frárennslisslöngunni.
  • Gölluð tenging – Ef tengingin er ekki rétt gæti vélin kveikt og slökkt á sjálfri sér af handahófi. Þetta getur verið erfitt að ákvarða svo það er skynsamlegt að kalla út tæknimann.
  • Ofhitnun – Ef þú hefur notað vélina þína stanslaust í fimm klukkustundir eða meira gæti það bara verið ofhitnun. Gefðu vélinni frí og reyndu aftur síðar.
  • Leki – Sumar vélar stöðvast í miðri þvottalotu ef grunur leikur á leka. Ef þú sérð vatn koma einhverstaðar úr vélinni skaltu athuga slöngur, dælu og hurðarþéttingu.

Þvottavélin fer ekki í næstu lotu

Líklegasta ástæðan fyrir því að þvottavélin fer ekki í næstu lotu er bilaður tímamælir. Tímamælirinn stjórnar hverju skrefi í lotunni, færir ferlið frá þvotti til skolunar og snýst síðan. Þannig að ef tímamælirinn bilar geta loturnar ekki haldið áfram sjálfkrafa.

Góðu fréttirnar eru þær að þú getur auðveldlega skipt um það sjálfur eða ráðið iðnaðarmann til að gera það fyrir þig - vertu viss um að þú kaupir tímamæli sem er samhæfður við tegund og gerð þvottavélarinnar.

Aðrar mögulegar orsakir eru:

  • Hurðarlás eða samlæsing – Samlæsingin er virkjuð þegar hurðinni er örugglega lokað með læsingunni. Það gerir vélinni kleift að vita að það er óhætt að hefja þvottinn eða fara í næsta lotu meðan á þvotti stendur. Ef þetta bilar veit vélin ekki hvort og hvenær hún er tilbúin til að halda áfram.
  • Frárennsli – Frárennslisdælan fjarlægir umframvatn úr tromlunni í hverju skrefi þvottaferilsins. Ef frárennslisdælan er biluð og getur annað hvort ekki fjarlægt vatnið eða gefið til kynna að það sé búið, þá mun vélin ekki halda áfram að vinna. Undarleg hljóð sem koma frá vélinni meðan á tæmingu stendur eru öruggt merki um að vandamál.

Þvottavélin mín snýst ekki

Ef þvotturinn þinn nær enda á hverri lotu en neitar að snúast, gæti það verið eitthvað eins einfalt og ofhleðsla, sem veldur því að hún kemst í ójafnvægi. Ef þú hefur til dæmis sett of mörg þung handklæði í vélina, getur þyngdin haft áhrif á skynjarana og slökkt á vélinni. Komdu jafnvægi á álagið aftur og reyndu aftur. Flestar nýjar vélar í dag láta vita ef þú hefur sett of mikið í hana.

Ef vandamálið er ekki ofhleðsla gæti ástæðan verið eitt af eftirfarandi:

  • Brotinn hurðarlás eða samlæsing – ef annað hvort er bilað eða slitið þá fær þvottavélin ekki grænt ljós um að byrja að snúast. Þú getur athugað þetta með því að ýta á lásinn - ef það smellur ekki er það bilað. Horfðu líka á plasthlutana í kringum hurðarlásinn, ef þeir eru slitnir eða tærðir gæti merkið ekki virkað.
  • Reiminn – Athugaðu hvort reiminn sé rót vandans með því að opna hurðina og reyna að snúa tromlunni. Það ætti að vera einhver mótstaða - ef tromlan snýst hins vegar of auðveldlega þá gæti þurft að skipta um reimina.
  • Stífla – Ef tromlan getur ekki tæmt sig þá byrjar snúningurinn ekki. Ef þú sérð enn vatn inni í vélinni þegar snúningurinn ætti að vera að byrja er það merki um að það þurfi að athuga hvort frárennslislagnir séu stíflaðar.

Aðrar orsakir gætu verið bilaður drifmótor eða dæla. Ef þú ert enn ekki viss um orsökina skaltu hafa samband við fagmann.

Af hverju kemur vond lykt úr þvottavélinni?

Það þarf að þrífa þvottavélar af og til. Vond lykt getur komið frá óhreinni hurðarþéttingu eða myglu í tromlu eða þvottaefnisskúffu.

Byrjaðu á að kanna hvort sé stífla í síu og frárennslisslöngu. Settu handklæði á gólfið til að taka við bleytu og dragðu síuna út (venjulega neðst á vélinni). Fjarlægðu allt kusk eða rusl.

Ef það eru engar stíflur gæti þurft að hreinsa vélina vel. Mygla, uppsöfnuð óhreinindi og þvottaefni geta valdið vondri lykt.

Hægt er að laga flest vandamál með þvottaefnisskúffur með því að hreinsa þær vel og framleiðendur mæla með því að þú gerir það reglulega. Ef þvottaefnisskúffan er í raun biluð er hægt að kaupa varahluti frá framleiðanda.

Fjarlægðu skúffuna alveg úr þvottavélinni, notaðu heitt vatn og uppþvottalög og vertu með hanska til að skrúbba hana vel. Það þarf líka að þrífa þar sem skúffan situr í vélinni og gæta sérstaklega að holunum efst.

Það er líka þess virði að gera þjónustuþvott á vélinni þinni, sem þýðir að keyra mjög heitan þvott eða sérstakt prógramm á vélinni, flestar nýjar vélar láta vita ef þörf er á tromluhreinsun - skoðaðu handbókina til að fá nánari upplýsingar. Að gera þetta einu sinni í mánuði hjálpar til við að halda óhreinindum í skefjum.

 

Brunalykt frá þvottavélinni

Brunalykt sem kemur frá þvottavélinni þinni getur bent til hættulegra aðstæðna. Slökktu strax á vélinni og taktu hana úr sambandi.

Brunalyktin gæti stafað af bilaðri reim eða mótor.  Hafðu samband við fagmann til að greina vandamálið.

Af hverju lekur þvottavélin?

Of mikið þvottaefni getur valdið of mikilli froðu sem veldur því að tromlan offyllist og lekur.

Næst skaltu ganga úr skugga um að vélin sé alveg jöfn á gólfinu – ef svo er ekki getur vatn seytlað út.

Ef vélin er enn að leka, þá er kominn tími til að skoða slönguna. Hertu tengingarnar og leitaðu að sprungum eða rifum.

Ef vatn lekur enn í næstu lotu gætirðu þurft að skipta um vatnsinntakssíuna eða vatnsslönguna. Allt uppsafnað rusl og/eða almennt slit getur valdið því að þessir hlutir bili og leki.

Ef slangan sjálf er að leka, þá þarf að skipta um hana.

Það er skynsamlegt að athuga vatnsdæluna líka.

Ef lekinn er aðeins minniháttar og kemur að framan gæti þetta verið þvottavélarhurðin. Innsiglið í kringum hvelfinguna getur slitnað með aldrinum, sem leiðir til leka og/eða þéttingar, en það er auðvelt að skipta um hana.

Hávaðavandamál í þvottavél

Hvort sem þvottavélin skröltar, suðar eða titrar, og hávaðinn er óhóflegur þá er eitthvað að sem þú ættir ekki að hunsa.

Mögulegar orsakir eru:

  • Slitnar trommulegur
  • Þvottavélafætur í ójafnvægi
  • Hindranir í ytri potti og innri tromlu
  • Mikið þvottaefni.

Undarleg hljóð sem koma frá þvottavél ætti að kanna, jafnvel þótt þau séu hljóðlát.

Algengustu ástæðurnar fyrir undarlegum hljóðum í þvottavél eru klink og brjóstahaldaravír.

 

 

 

 

Heimildir:  frá Which; Neytendasamtökum í Bretlandi

 

JJ/2023

  • Monday, 09 október 2023