Þrif á háf viftu í eldhúsi

Eitt af því mikilvæga sem þarf að þrífa í eldhúsum eru háfarnir/vifturnar fyrir ofan eldavélina. Þetta þarf að gera reglulega til að losa fituna sem safnast fyrir í síunum.

Þú losnar ekki bara við fituna því matarlyktin safnast í fituna og ef þú hefur verið í vandræðum með að losa þig við litlu hvimleiðu ávaxtaflugurnar þá getur óhrein vifta verið orsökin. Einnig getur eldhætta skapast ef mikil fita hefur safnast fyrir í síunum. Hreinn háfur bætir inniloftið.

Þegar þú þrífur þinn háf/viftu í fyrsta skipti þarf að komast að því hvort um er að ræða hringrásandi háfur með kolasíu eða útblásturs háfur.

Hringrásandi háfur með kolasíu síar loftið í gegnum filterinn og blæs síðan hreinu lofti aftur út í eldhúsið. Kolasían eyðir matarlykt. Athuga skal að hringrásandi háfur losar þig ekki við rakann og er því nauðsynlegt er að loftræsta eldhúsið til að losna við raka.

Útblásturs háfur hefur meiri sogkraft og sýgur loftið inn og raki og lykt er beint út úr húsinu í gegnum útblástursleiðslu, fitan safnast fyrir í síunni.

Athugið að við eldamennsku losnar um ½ - 1 lítri af gufu út í andrúmsloftið.
Útblásturs háfur losar þig við mestalla þessa gufu, en nauðsynlegt er að hafa opna glugga í eldhúsi þar sem hringrásandi háfur er til staðar.

Ef fitusían er orðinn mjög skítug og full af fitu, þá fer fitan að safnast utan á háfinn, og utan á og ofan á innréttinguna og eykur þannig við þrifin hjá þér auk þess sem sogkraftur háfsins minnkar. Það er því mikilvægt að þrífa háfinn reglulega. Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um þrif. En venjulega er mælt með því að þrífa fitusíurnar á fjögurra vikna frest.

Til að athuga sogkraftinn á háfnum þínum, getur þú sett A4 blað með háfinn á fullum krafti við síuna. Ef háfurinn heldur blaðinu föstu þá er sogkrafturinn í fínu lagi, ef ekki er líklegast að síurnar séu mettar af fitu.

Fitusíur úr áli og stáli þola að fara í uppþvottavél.
Misjafnt er hvort kolasíur þola að fara í uppþvottavél. Lesið leiðbeiningar frá framleiðanda. Þá þarf að skipta reglulega um kolasíur eða um einu sinni á ári eða oftar. Með því að þrífa fitusíurnar reglulega lengist líftíminn á kolasíunum.

Best er að nota raka tusku og uppþvottalög til að þrífa háfinn að innan. Uppþvottalögurinn vinnur mjög vel á fitunni. Oftast er nóg að nota klút en ef fitan er mikil er ágætt að nota grófu hliðina á pottasvamp og þurrka síðan vel yfir með heitu vatni og klút.

Þegar Fitusíurnar eru settir í uppþvottavél er betra að þvo þær ekki með öðru leirtaui, fitan getur sest á leirtauið. Ef það er mjög langt síðan fitusían var þvegin er gott að skola með heitu vatni í vaskinum eða láta liggja í heitu vatni og uppþvottalegi og losa þannig mestu fituna áður en sett er í uppþvottavélina.

Ef ekki er möguleiki að nota uppþvottavél er best að nota heitt vatn og uppþvottalög og skrúbba vel. Muna að hreinsa sápu í burtu með vatni.
Annað ráð er að sjóða vatn í stórum potti sem passar fyrir síuna og setja matarsóda út í sjóðandi vatnið í góða stund.

Eftir þvott skal leggja síurnar til þerris áður en þeir eru settir í háfinn aftur.

Gangi þér vel! ;-)

 

 

 

JJ/2017

  • Wednesday, 23 ágúst 2017