Fatasóun - hvað getur þú gert?

Kvenfélagasambandið hefur rekið Leiðbeiningastöð heimilanna frá því í október 1963.  Alla tíð síðan hefur markmiðið með rekstrinum verið að styðja við heimilin í landinu, fræða um hagkvæmt heimilishald og koma þannig í veg fyrir hverskyns sóun.  Matarsóun er eitt þeirra verkefna sem Kvenfélagasambandið hefur tekið virkan þátt í. Meðal annars með þátttöku í vefnum www.matarsoun.is

Kvenfélagasambandið heldur áfram að láta sig matarsóun varða en nú viljum við beina sjónum líka að þeirri gífurlegu fatasóun sem á sér stað hér á landi sem annarssstaðar.

Fatasóun

 

 „Mikil ofneysla er á fatnaði á Íslandi og öðrum Vesturlöndum og mikið er framleitt af endingarlitlum fatnaði. Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðal-jarðarbúi. Á hverju ári eru framleiddar um 150 milljarðar flíka sem svarar til 20 flíkum á hvert mannsbarn í heiminum árlega.“ 1

Við getum öll tekið ábyrgð og lagt okkar af mörkum.

Hér eru nokkrar punktar til að hafa í huga áður en við verslum enn eina flíkina.  

Hugsaðu áður en þú verslar

  • Þarftu nýja flík eða langar þig bara í hana?
  • Farðu í gegnum fataskápinn áður en þú ferð í búðina. Sniðugt er að gera reglulega lista yfir það sem er í fataskápnum og eingöngu versla það sem þú þarft. 
  • Ekki versla nýja flík eingöngu vegna þess að hún er svo ódýr.
  • Hvað ertu að kaupa?
  • Úr hvaða efnum er flíkin? Hvernig eru gæðin? Verslaðu frekar flíkur sem eru sígíldar, endast lengur og eru úr umhverfisvænum efnum og eru framleiddar við ásættanleg vinnuskilyrði.

Farðu vel með

Hugsaðu vel um þær flíkur sem þú átt nú þegar. Ekki þvo hreinan þvott að óþörfu, oft er nóg að viðra flíkina aðeins og fjarlægja bletti. Fylgdu þvottaleiðbeiningum og veldu umhverfisvæn þvottaefni í réttu magni. Allar nýjar flíkur ætti að þvo fyrir fyrstu notkun til að losa sig við þau efni sem geta verið í flíkinni frá framleiðanda.

Sparaðu rafmagn með því að þvo á lægra hitastigi.  Athugaðu samt að ekki allur þvottur verður hreinn við 40°.  Þú finnur góðar þvottaleiðbeiningar á vef Leiðbeiningastöðvarinnar www.leidbeiningastod.is

Gerðu við

Safnaðu saman því sem þarf að gera við. Festu á tölur, gerðu við götótta sokka og annað sem má lagfæra. Farðu með það sem þarf að gera við, stytta, minnka og/eða víkka á saumastofu ef þú getur ekki gert það sjálf/ur.  Því oftar sem þú notar hverja flík því umhverfisvænni verður hún.

Endurvinna

  • Lánaðu, skiptu eða gefðu áfram.
  • Farðu í gegnum fataskápinn minnst einu sinni á ári.
  • Losaðu þig við það sem þú notar ekki. Seldu eða gefðu áfram.
  • Rauði Krossinn ásamt endurvinnslustöðvum Sorpu taka við öllum vefnaði, líka því sem er orðið slitið.
  • Að skipuleggja skiptimarkað með vinum eða félagasamtökum er skemmtilegt verkefni þar sem allir græða.

Leigðu veisluklæðnað

Sérstaklega fín föt sem við notum sjaldan eða jafnvel bara einu sinni er betra að leigja eða fá lánuð.  Ef þú hins vegar vilt frekar eiga fínu fötin, veldu þá fatnað sem er sígíldur og er hægt að nota á marga vegu.

Maður þarf ekki að eiga allt!

Umhverfisvænasta flíkin er sú sem þú átt nú þegar til inni í skáp.

„Hægt að draga verulega úr umhverfisáhrifum með endurnotkun og endurnýtingu
Hver einasta flík sem er framleidd krefst orku- og vatnsnotkunar og hefur í för með sér losun á mengandi efnum. Framleiðsla á aðeins einum gallabuxum þarfnast tæplega 11.000 lítra af vatni. Uppistaðan í efni gallabuxnanna er bómull en það er jafnframt algengasta efnið í fatnaði. Bómullarplantan er frek á vatn og efnanotkun í kringum ræktun hennar er mikil. Sem dæmi er áburðarnotkun í bómullarræktun ein sú mesta sem gerist í landbúnaði og um 12% allrar notkunar á skordýraeitri í landbúnaði er vegna bómullarræktar. Á svæðum þar sem framleiðsla á vefnaðarvörum er mikil, finnst fjöldinn allur af heilsuspillandi efnum í umhverfinu, s.s. þungmálmar og hormónabreytandi efni. Vatnasvæði taka við óhreinsuðu skólpi frá verksmiðjum með tilheyrandi áhrifum á lífríki og íbúa svæðanna í kring. Notkun á endurunnu bómullarefni getur því dregið mikið úr umhverfisáhrifum og sparar bæði orku og náttúruauðlindir.“ 2

  1. Af vef Umhverfisstofnunar www.ust.is
  2. Af vef Sorpu www.sorpa.is

 

Jenný Jóakimsdóttir

Þessi grein birtist fyrst í 1. tbl Húsfreyjunnar 2018 og er hluti af verkefni Kvenfélagasambandsins "Vitundarvakning um fatasóun" sem er styrkt af Umhverfisráðuneytinu. 

 

Laugardaginn 5. október 2019  verður aftur Umhverfisdagur á Hallveigarstöðum þar sem kvenfélagskonur aðstoða þig við að gera við, verða með skiptimarkað á fatnaði ásamt kynningu og fræðslu um umhverfismál. 

Láttu sjá þig.   

 

  • Thursday, 01 nóvember 2018