Förum vel með flíkurnar okkar - minnkum fatasóun

Vitundarvakning um fatasóun

Eitt af því sem við getum gert til að minnka fatasóun er að fara vel með flíkurnar okkar og þvo þær þannig að þær endist sem lengst.

fashion 605508 640

 Gullna reglan er að þvo eingöngu þegar flíkin er óhrein, blettahreinsa frekar og hengja út til að fríska upp og fjarlægja lykt. Þegar við setjum í þvottavélina notum við stysta þvottaprógramm á vélinni sem er í boði og sem lægstan hita og lægstu mögulegu vindingu til að koma í veg fyrir að trefjar þráðurinn slitni sem minnst.  Þetta gerum við til að minnka vatnsnotkun og orku, til að koma í veg fyrir að óæskileg efni og plastagnir fari út í frárennslikerfið og til að halda flíkunum okkar fallegum og óslitnum sem lengst. Höfum þó í huga að stundum er nauðsynlegt að þvo flíkur við hærra hitastig, sjá hér.

Gullna reglan við förgun er að allur textíll ætti að lokum að fara í endurvinnslu, en fyrst er best að reyna allt til að koma textíl í áframhaldandi notkun, með því að skipta, selja eða gefa áfram.

Hér er yfirlit yfir hin ýmsu fataefni.  Lærðu hvernig þú getur farið sem best með flíkurnar þínar þannig að þær endist sem lengst.

 

Gallaefni

Jacob Davis fann upp gallaefnið 1873 og varð það strax mjög vinsælt. Levi Strauss fór mjög fljótlega að framleiða það í massavís. Gallaefni er búið til úr bómull og stundum ofið með öðrum þráðum, t.d. Elastane til að gefa teygju.  Gallabuxur eru vinsælasta gallaefnis varan og eru 1,24 milljarðar gallabuxna seldar árlega. Mikið af efnum er notað við gallaefnis framleiðslu og það þarf um 10.800 lítra af vatni til að framleiða eitt stykki af gallabuxum.

Þvottur: Lokið rennilásum og hnöppum/tölum og snúðu gallaflíkum við áður en þær eru þvegnar. Ef gallabuxurnar eru ekki skítugar og með blettum, ekki þvo þær, frystu þær!  Settu gallaflíkurnar þínar í poka og settu þær í frystinn til að losna við bakteríur og fríska þær upp. Blettahreinsaðu en ef þú þarft endilega að þvo þær, þvoðu þær þá á 30°C.

Þurrkun: Þegar þú þurrkar gallaflíkur er best að slétta úr þeim og hengja þær upp eða leggja þær flatar. Það kemur í veg fyrir eða allavega minnkar líkurnar að þú þurfir að strauja þær.  

Förgun: Gallaefni eru alveg sérstaklega endingargott og þú ættir að geta notað gallaefni í langan tíma. Athugaðu fyrst hvort vinur gæti nýtt sér flíkina. Það er möguleiki á að endurnýta efnið eða endurvinna. Settu þær í næsta endurvinnslugám til að forða þeim frá landfyllingu í sem lengstan tíma.  Þær eru til að mynda notaðar í einangrun fyrir byggingar

 

Silki

Silki er ofið náttúrulegt efni. Það er unnið úr þráðum silkiormsins. Ýmis smádýr liðdýra eins og kóngulær og nokkrir ættbálkar skordýra framleiða silki, ýmist sem fullorðin dýr eða á lirfustigi, en mórberjasilkifiðrildið er sú tegund sem helst býr til silki sem menn geta nýtt sér. Lirfa fiðrildisins framleiðir silkið í púpu sína. Silkiþráður er eitt af sterkustu efnum heims miðað við þyngd og silkiþráðurinn er mjög sveigjanlegur og sterkur.

Þvottur: Kíktu á þvottaleiðbeiningar á flíkinni. Flest silkiefni þola vélþvott á stillingu fyrir viðkvæman þvott eða silkistillingu,þvoðu á 30°C eða lægra. Fyrir auka vörn skaltu þvo í þvottaneti.  Ef þú þværð í höndunum skaltu setja ¼ bolla af borðediki í 3,5 lítra af vatni. Það endurheimtir gljáann í silkinu. Láttu það líggja þannig í bleyti í góða stund og skola svo nokkrum sinnum upp úr alveg hreinu vatni.

Þurrkun: Þegar silkiflíkin er orðin hrein, leggðu þá blauta flíkina á handklæði og rúllaðu upp til að ná sem mestu vatni. Aldrei hengja silkiflíkur á viðarherðatré, það getur gefið bletti. Silki getur hlaupið og skemmst ef þurrkað á ofni eða í þurrkara.

Förgun: Ef silkiflík er rétt meðhöndluð getur flíkin enst í mjög langan tíma.  Ef þú vilt ekki nota flíkina lengur, reyndu þá að selja hana eða gefa eða nýttu silkið í aðra flík sem þú munt nota.

 

Flís

Flís er efni framleitt út tilbúnum trefjum og er hannað til að líkja eftir eiginleikum ullarinnar. Flís er búið til úr poly-ethylene terephthalate (PET s.s Plasti), þetta þýðir að flísefni er hægt að búa til úr endurunnum plastflöskum.

Þvottur: Í hvert skipti sem flík úr flísefni er þvegin sleppa um 2.000 míkróplastagnir út í frárennslið. Mikið af þessum ögnum berast í dýrasvif í sjónum og síðan áfram upp fæðukeðjuna. Þvoðu flísflíkina þína með Coral Ball, sem sett er í þvottavél til að grípa plastagnirnar.  Fæst hjá www.dimmbla.is eða með því að nota þvottanet sem  er sérstaklega hannað til að grípa plastagnir Til dæmis Guppyfriend þvottanet. 

Þurrkun:  Forðastu að þurrka flísefni í þurrkara og að strauja það. Hiti getur valdið því að plasttrefjarnar bráðna. Leggðu flíkina flata til að þurrka og til að koma í veg fyrir að hún krumpist.

Förgun: Flísefni er hægt að endurvinna ef það er 100% Pólýester, athuga miðann á flíkinni eða hafðu samband við seljanda/framleiðanda til að vera alveg viss. Flís er einnig hægt að endurnýta sem einangrun í byggingar. Ef flíkin er í enn í góðu lagi er góð hugmynd að gefa hana áfram til þeirra sem gætu þurft á henni að halda.

 

 

Bómull

Bómull er um 40% af allri textíl framleiðslu í heiminum. Bómullarefnið er ofið úr þráðum bómullarplöntunnar. Mjög mikið vatn fer í bómullarframleiðsluna og mikið er notað af skordýraeitri og kemískum efnum við framleiðsluna. 15þúsund lítra af vatni þarf til að framleiða eitt kíló af bómull, 2.700 lítra af vatni þarf til að framleiða einn bómullarbol,það er jafnmikið vatn og ein manneskja drekkur á þremur árum!. Veldu lífrænt rǽktaða bómull ef þess er kostur. Í dag er lífrænt ræktuð bómull aðeins 1% af heildarbómullarframleiðslu.  

Þvottur: Náttúrulegar trefjar eiga það til að hlaupa í þvotti. Svo alltaf ætti að þvo á sem lægstum hita, 30°C.

Þurrkun: Best er að þurrka bómullarefni með því að hengja upp eða leggja flatt til forðast að það krumpi. Ef það þarf að strauja bómull er best að gera það meðan efnið er enn rakt eða nota gufu.

Förgun: Bómull er náttúrulegar trefjar og ef hún hefur ekki verið efnameðhöndluð eða lituð er möguleiki á því að setja hana í safnhauginn. En það er sjaldnast svo með venjulegar bómullarflíkur, nema hún sé lífrænt vottuð. Það er möguleiki að endurvinna bómullina. Ef flíkin þín er alveg ónothæf og ekki hægt að setja hana í safnhauginn, settu hana þá í næsta endurvinnslugám. Svo er einnig hægt að nýta gömul bómullarföt sem klúta og tuskur til að nota við þrifin.  

 

 

Ull, kasmír og önnur dýrahár

Ull er garn búið til úr dýrahárum, svo sem frá kindum, geitum, lamadýrum eða kameldýrum. Ullarþræðirnir festast saman þegar ullin er spunnin til að búa til garn, sem síðan er notað til að búa til flíkur. Ullin heldur hita sérstaklega vel og er náttúrulega bletta og krumpufrí og dregur auðveldlega í sig, sem gerir það að verkum að auðvelt er að lita ullina.

Þvottur: Alveg einsog með gallaefni þá ætti að þvo ullina eingöngu þegar það er nauðsynlegt. Alltaf ætti að nota þvottaefni sem sérstaklega eru fyrir ull og þvo á sérstöku ullarprógrammi eða að handþvo.

Þurrkun: Leggðu flíkina flata og lagaðu hana til án þess að toga hana til. Ef þú handþværð flíkina leggðu hana þá á handklæði og rúllaðu upp til að losa sem mestan raka úr flíkinni.

Geymsla: Mölflugan elskar ullina og getur gert stór göt á ullarflíkur. Mölflugan er ekki hrifin af ljósi, svo flíkur sem eru reglulega notaðar eru ekki í eins mikilli hættu. Geymdu ullarflíkur sem ekki eru notaðar reglulega í lokuðum bómullarpoka því mölflugan er ekki hrifin af bómullinni. Til að losna við mölflugurnar skaltu setja ullarflíkur í frystinn í 24 tíma og ná síðan herbergishita og endurtaktu 2x - 3x.

Förgun: Fyrst ættir þú að prófa að skipta flíkinni, gefa hana eða selja. Annars er líka hægt að setja ullina í safnhauginn svo lengi sem flíkin hefur ekki verið lituð með tilbúnum litum eða hún blönduð gerviefnum. Skoðaðu miðann.

 

 

Rayon (Viskós), Lyocell, Modal 

Þessar hálf-tilbúnu trefjar koma frá náttúrulegum efnum en eru meðhöndlaðar með efnaferlum til að búa til textíl vefnað.  Einnig þekktar sem sellulósa trefjar.

Þvottur: Snúðu flikinni á rönguna áður en þú setur hana í þvottavélina. Ef þvegið í höndunum þvoðu við 30°C með mildu þvottaefni og slepptu alveg mýkingarefni. (ættir í raun alltaf að sleppa því) Passaðu að vinda ekki þessi efni því þau geta aflagast.

Þurrkun: Rayon (einnig kallað Viskós)á það til að hlaupa í þvotti, svo alltaf er best að leggja það flatt til að þorna. Modal, og lyocell er aðeins seigara efni og hægt að þurrka í þurrkara ef þess þarf nauðsynlega.

Geymsla:  Þessi efni krumpast ekki mikið og því hægt að geyma í skúffum eða hengja upp í skápum.

Förgun: Flíkur úr Modal og lyocell trefjum eru mjög notadrjúgar og ættu að endast lengi ef þú ferð almennilega með þær. Ef þú kemur flíkinni ekki í endurnotkun hjá öŕum, farðu þá með í endurvinnslu ef þú vilt ekki nota flíkina lengur.

 

 

Akríl, Nælon og Pólýester

Gerviefni komu fram árið 1931 og hefur þróun þeirra verið hröð síðan. Það er ódýrt að framleiða gerviefni og þau endast lengi og hægt að nýta á margan hátt. Þau eru samt mjög óumhverfisvæn og geta verið í hundruð ára að rotna. Pólýester er tilbúið plastefni unnið úr hráefni sem kemur úr olíuiðnaðinum. Pólýester var uppgvötvað af ensku fyrirtæki árið 1941. Það er vinsælasta gerviefnið og er mest notaða textílefnið fyrir utan bómul.

Þvottur: Þegar gerviefni eru þvegin í þvottavél, notaðu þá Coral Ball eða þvottanet sem grípur plastagnirnar áður en þær menga frá sér í frárennslisvatnið.

Þurrkun: Best er að hengja flíkur úr gerviefnum til þerris, þær eru ekki lengi að þorna. Aldrei setja flíkur úr gerviefnum í þurrkarann, það veikir og skemmir trefjarnar mjög fljótt.

Förgun: Ef þú þarft að losa þig við flíkur úr gerviefnum, farðu þá með þær beint í endurvinnslugám. Í dag er ekki hægt að endurvinna gerviefni en einhver fyrirtæki eru þó að þróa aðferðir sem ættu að gera það mögulegt í framtíðinni. Ef flíkin er 100% Pólyester, skoðaðu miðann eða hafðu samband við seljanda/framleiðanda um hvernig má endurvinna. Aldrei ætti að brenna gerviefni, þau gefa frá sér eitraðar gastegundir.  

 

 

-------------- 

 

 

 

Þetta efni er unnið upp úr bækling sem alþjóðasamtökin Fashion Revolution hafa gefið út. En það eru samtök sem berjast fyrir auknu gegnsæi hjá fata framleiðendum Þau berjast fyrir umhverfisvænni framleiðslu, að borguð séu sanngjörn laun við framleiðsluna og að aðstaða starfsmanna sé góð og fleira.  www.fashionrevolution.org

 

 

mars 2019/JJ

  • Thursday, 28 mars 2019